Ljósmóðir.is notar vafrakökur til að bæta notendaupplifun og stuðla að frekari þróun heimasíðunnar.
Upplýsingar um vafrakökur
Góðan dag, Ég hef verið að mæta í Infrared Hot Fit tíma áður en ég varð ólétt. Þetta eru tímar með infrarauðum hita í lofti ásamt hita og rakatækjum. Núna er ég gengin 6 vikur og er að velta því fyrir mér hvort mér sé óhætt að mæta ennþá í þessa tíma? Með fyrirfram þökkum
Sæl
Ekki er mælt með því að stunda heita tíma í leikfimi á meðgöngu og sérstaklega ekki fyrstu þrjá mánuðina. Hækkun á líkamshita móður getur haft áhrif á fósturþroska og líðan ófædda barnsins. Þetta á einnig við um gufuböð og mjög heita potta.
Það er því ráðlagt að fara varlega í allt sem veldur því að líkamshiti móður hækkar mikið á meðgöngu.
Kær kveðja, Jóhanna María Friðriksdóttir, ljósmóðir
Hæhæ, nú er ég búin að sjá helling af svörum um það á netinu hvort að ég má borða camembert eða ekki og ég veit ekki lengur hvað er rett?? mig langar svo rooosalega mikið í camembert en ég veit ekki hvort að það sé í lagi að fá sér sma. Ég er stödd á Íslandi og ég veit ekki hvort t að osturinn her er betri en osturinn eitthver staðar úti. Ég er komin 9v og ég veit ekki hvernig ég á eftir að na hemja mig ef að ég má ekki borða sma camembert.
Sæl Hvítmygluostar framleiddir á Íslandi eru gerilsneyddir og er því lagi að neyta þeirra á meðgöngu. Erlendir ostar eru sumir hverjir ógerilsneyddir og er því best að forðast þá.
Góðan daginn. Ég er gengin um 5 og hálfa viku (var bara að komast af því að ég væri ólétt), og það var að koma smá rautt blóð með útferð, ekki mikið samt, er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? (Fer í snemmsónar eftir 2 vikur) Bestu kveðjur.
Sæl og til hamingju með þungunina.
Það er nokkuð algengt að það komi smá blæðing á þessu stigi, svokölluð hreiðurblæðing, en það er þegar fóstrið er að festa sig við legvegginn. Þetta eru ekki miklar blæðingar en getur verið smá blóðug útferð eða smá blóð í pappír þegar konan fer á klósett. Reyndu að vera róleg yfir þessu og svo kemur í ljós í sónar eftir 2 vikur hvort það sé ekki allt eins og það á að vera.
Hæhæ, ég fékk meðgöngusykursýki og endaði svo í fyrirfram ákveðnum keisara útaf sitjandi barni á fyrstu meðgöngu. Dett ég þá sjálfkrafa í áhættumeðgöngu á annarri meðgöngu?
Nei, ef allt gengur vel á þessari meðgöngu þarftu ekki að vera í áhættumæðravernd. Heilsugæslan ætti að geta séð um meðgönguvernd.
Hæhæ, mæliði með eitthverjum góðum svefnráðgjafa? :)
Það er því miður ekki í boði mikið úrval af svefnráðgjöf fyrir börn. Mæli með því að þú skoðir svefnráðgjöf á Barnaspítala Hringsins eða kynnir þér Betri svefn.
Ég tók óléttupróf fyrir bólusetninguna og fékk neikvætt, var bólusett og viku seinna fékk ég jákvætt óléttupróf (er með langan og óreglulegan tíðarhring). Eftir tvær til þrjár vikur á ég að fá seinni skammtinn. Borgar sig fyrir mig að bíða þar til eftir 12 vikur, eða fara þegar ég verð boðuð eða bíða alveg með að fá seinni sprautuna?
Sæl Það er í raun ekkert rétt eða rangt svar við þessu. Bóluefnið hefur ekki verið sérstakega rannsakað á ófrískum konum og því ekki hægt að útiloka áhættuna fyrir fóstrið. Margar konur kjósa að bíða fram yfir 12 vikurnar með að fá bóluefnið. Það þarf að meta svolítið áhættuna á það frá COVID og hvort hún sé mikil. Ef þú ert í miklum áhættuhóp er líklega best fyrir þig að að klára bólusetninguna, ef ekki gætir þú beðið fram yfir 12 vikurnar. Þetta er ákvörðun sem þú þarft að taka fyrir þig. Mæli með því að þú kynnir þér þetta aðeins áður en þú tekur ákvörðun. Hér er upplýsingablað sem hefur verið gefið út í Bretlandi til þess að hjálpa ófrískum konum að taka ákvörðun um bólusetningu.
Gangi þér vel