Ljósmóðir.is notar vafrakökur til að bæta notendaupplifun og stuðla að frekari þróun heimasíðunnar.
Upplýsingar um vafrakökur
Góðan daginn Mig langar að spyrja hvort að ferlið í eftirliti sé allt annað þegar móðir er 42 ára. Og er við einhverju öðru að búast en eðlilegri meðgöngu ? Takk fyrir
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Eftirlitið er aukið hjá konum sem eru eldri en 35 ára á meðgöngu en ferlið sjálft er ekki mikið breytt. Rannsóknir hafa sýnt að áhætta eykst á sjúkdómum á meðgöngu og vandamálum tengdum fæðingu með auknum aldri kvenna á meðgöngu. Meðgönguvernd fer fram í heilsugæslu með ljósmóður ef kona og barn eru öðru leiti heilbrigð. Auknar líkur eru meðal annars á háþrýstingi/meðgöngueitrun, sykursýki, blóðsega hjá móður og vaxtarskerðingu hjá barni og fyrirburarfæðingu. Ljósmóðirin hefur sérstaklega í huga að fylgjast með því.
Það er gert með að mæla blóðþrýsting í skoðunum og athugað hvort prótein sé í þvagi sem getur bent til meðgöngueitrunar (gert hjá öllum konum). Skimað er fyrir meðgöngusykursýki með fastandi blóðprufu í byrjun meðgöngu og sykurþolsprófi um 28 vikur meðgöngu. Einnig er metin þörf á vaxtarmati með ómskoðun hjá þeim sem eru eldri en 40 ára.
Þá er mikilvægt eins og fyrir allar konur á meðgöngu að huga að hreyfingu og heilbrigðu líferni, þó það sé aukin áhætta þá þarf það ekki að þýða að kona greinist með kvilla. Vonandi svarar þetta aðeins spurningunni.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsóttir, ljósmóðir.
Hæhæ Ég er komin 11v og 2 daga. Hvernig er það með að fara í heita potta eða heitar laugar eins og Sky Lagoon. Eg hef heyrt svo mismunandi skoðanir á þessu. Er í góðu að fara í slíkar Laugar? Er eitthvað hamark sem mælst er með að fara ekki yfir þegar kemur að þessu? Er þetta skaðlegt fyrir barnið?
Það er í góðu lagi að fara í heita potta og heitar laugar á meðgöngu. Þó ber að varast mikinn hita, mjög heitir pottar (40gr t.d.) geta hækkað líkamshita sem getur valdið streitu hjá barninu, þá sérstaklega á fyrsta þriðjungi. Mælt er með að fara ekki í heitan pott sem er yfir 38-39gr á meðgöngu vegna þessa.
Sumar verða viðkvæmar á meðgöngu við hita og finna fyrir svima eða annarri vanlíðan í heitum pottum. Því er gott að taka alltaf vatnsbrúsa með sér í laugina. Alltaf er gott að fara varlega og hlusta á líkamann sinn.
Gangi þér vel og bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.
Hæhæ ég er með barn á brjósti og ekki byrjuð á blæðingum en ákvað að taka egglospróf og óléttupróf á sama tíma og þau voru bæði jákvæð, ég tek síðan annað óléttupróf seinna um daginn og það var neikvætt, þetta voru strimlar. Er eitthvað að marka þetta? kveðja
Miklar líkur eru á að um þungun sé að ræða þar sem óléttupróf eru ólíkleg til að gefa falskt jákvæða niðurstöðu. Styrkur óléttuhormónsins hCG er mestur í morgunþvagi sem gæti verið ástæðan fyrir því að prófið sem þú tókst síðar um daginn reyndist neikvætt þrátt fyrir jákvætt próf fyrr um daginn. Það gæti verið gagnlegt fyrir þig að hitta kvensjúkdómalækni til að áætla meðgöngulengd þar sem þú hefur ekki byrjað á blæðingum eftir fæðingu.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.
Góða kvöldið. Ég vona að þið getið svarað mér, er svo óörugg í þessum málum. Ég sem sagt byrjaði seinast á blæðingum 19 janúar, er á 26 daga tíðahring og ætlast til að hafa verið með egglos í kringum 31. Janúar - 3 febrúar. Fyrir ca viku síðan fékk ég ljós/föl bleika slímuga þá útferð (mjög ljóst þannig sást varla) eitt skipti á dag í 2 daga með einum pínu litlum blóðdropa. Tveim dögum seinna ákvað ég að taka óléttupróf en það kom út neikvætt. Núna um helgina byrjaði ég að finna fyrir einkennum eins og slæmum höfuðverk, sting í brjóstin inn á milli og vægum krampa eins og túrverkjum. Tók óléttupróf (sem hægt er að taka allt að 6 dögum fyrir áætlaðan blæðingar dag) snemma í gærmorgun og sáum við kærastinn minn mjög mjög mjög ljósa línu (sást varla, er var þar samt), en þar sem ég er óörugg um hvort þetta gæti hafa verið jákvætt óléttupróf, ákvað ég að taka annað eins próf í morgun og kom það út neikvætt. Er að verða mjög stressuð á óvissunni þannig varð að spurja hér hvort það gæti verið að ég sé ólétt? Eða hvort ég þurfi bara að reyna að anda rólega og bíða og sjá hvort ég byrji á blæðingum eða ekki og þá taka annað próf? Ætti að byrja á blæðingum á morgun miðað við 26 daga tíðahringinn. Bestu kveðjur.
Sæl og takk fyrir fyrispurnina,
Næmni þungunarprófa er mismunandi en yfirleitt eru þau talin veita áreiðanlega niðurstöðu eftir þann tíma sem blæðingar hefðu átt að hefjast. Ég myndi ráðleggja þér að taka annað þungunarpróf eftir nokkra daga. Ef þú færð jákvætt óléttupróf en nokkuð öruggt að um þungun sé að ræða og ráðlegg ég þér þá að hafa samband við ljósmóður í meðgönguvernd á þinni heilsugæslu til að ræða framhaldið. Gangi þér vel.
Berstu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.
Hæhæ hafa leiðbeiningar eitthvað breyst varðandi notkun á paracetamol á meðgöngu, rakst á þessa grein https://www.dv.is/pressan/2021/10/03/visindamenn-vara-barnshafandi-konur-vid-ad-nota-parasetamol/
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina.
Paracetamol má nota á meðgöngu ef nauðsyn krefur. Þá er ráðlagt að taka minnsta mögulegan skammt til að draga úr verkjum og/eða hita í eins stuttan tíma og hægt er. Gott er að ræða notkun á þessu tiltekna verkjalyfi við ljósmóðir í mæðravernd teljir þú þig þurfa að nota lyfið oftar en einstaka sinnum.
Hæhæ. Ég hætti á Cerazette pillunni mið október þar sem ég og kærastinn minn ákváðum að reyna á barneignir. Ég byrjaði ekki á blæðingum fyrr en í nóvember og hef verið á reglulegum blæðingum síðan þá, en hef alltaf verið að byrja 2 dögum fyrr á blæðingum en ég ætti miðað við þessar 4 vikur (þ.e.a.s byrja á blæðingum eftir 3 vikur og 5 daga frá byrjun seinasta tíðahringt). Ég er ekki viss hvenar ég er með egglos en miða það við ca 2 vikur frá byrjun tíðahrings. Ég byrjaði seinast á blæðingum 19 janúar og ætti þessvegna að byrja aftur á þriðjudaginn 14 febrúar miðað við seinustu tiðahringina. Fyrir 2 dögum síðan (6. Feb) tók ég eftir pínu litlum blóðdropa í pappírnum ásamt virkilega ljósbleiku slími/útferð, svo kom ekkert í gær en hef séð pínu litla blóðlínur og fölbleikt slím (meira glært en hvítt, en samt eitthvað bleikt) í dag. Hef einnig fundið fyrir sting/seyðing í brjóstin inn á milli, en samt ekki bæði brjóstin í einu. Ég tók óléttupróf í morgun (8. Feb) eftir að ég vaknaði (hafði farið á klósettið ca 3 tímum fyrr), en það var neikvætt. Gæti ég samt verið ólétt þrátt fyrir neikvætt próf? Kannski vert að taka það fram að ég er í mjög mikilli yfirþyngd, bmi yfir 40, en reyni að borða hollt, hreyfi mig slatta í vinnunni og tek folíat og önnur vítamín. Er mjög hröð á fótum þrátt fyrir stærðina :) Bestu kveðjur.
Sæl, takk fyrir fyrirspurnina
Erfitt er að segja til um það með þessum upplýsingum í gegnum netið. Flest þungunarpróf eru ekki örugg fyrr fáeinum dögum, jafnvel einum dag fyrir áætlaðar tíðir. Ég ráðlegg þér að taka aftur þungunarpróf eftir nokkra daga ef tíðablæðingar hafa ekki byrjað. Fals neikvætt próf eru algeng ef þau eru ekki tekin á réttum tíma, þá bæði ef þau eru ekki tekin að morgni til (þá er hormónið hCG sem mest í þvaginu, sem er mælt með þungunarprófi) og á réttum tíma áður en tíðablæðingar eiga að hefjast.
Frábært að þú sért að taka inn fólat! Haltu því endilega áfram. Einnig er ráðlagt að taka inn D-vítamín og omega 3. Hér er góðar upplýsingar á Heilsuveru, um ráðleggingar varðandi öðrum næringarefnum sem þarf að huga að á meðgöngu líkt og joði og járni. Góð heilsa, mataræði og hreyfing hjálpar varðandi frjósemi og á meðgöngunni sjálfri.
Ef seinna þungunarpróf reynist jákvætt þá hefuru samband við ljósmóður í heilsugæslu upp á meðgönguvernd. Gangi þér vel.
Bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir.