Ljósmóðir.is notar vafrakökur til að bæta notendaupplifun og stuðla að frekari þróun heimasíðunnar.
Upplýsingar um vafrakökur
Hæhæ Ég á 7 vikna stelpu og nú er farið að verða lengra á milli gjafa á næturnar, alveg 5-6 tímar stundum. Þarf ég að pumpa mig a milli þegar hún sefur svona lengi svo ég haldi mjólkinni? Eða aðlagast framleiðslan mín?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Það er eðlilegt að á þessum tíma fari að lengjast milli gjafa á næturnar. Mjólkurframleiðsla aðlagast almennt breyttri rútínu og þörfum barns og ættir þú ekki að þurfa að pumpa aukalega þegar gjöfum fer fækkandi.
Í einhverjum tilvikum getur ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd ráðlagt að pumpa aukalega. Það gæti meðal annars átt við þegar barn er fyrirburi, léttburi, fylgir ekki þyngdarkúrvu eða markmiðið sé að auka framleiðslu af öðrum ástæðum.
Ef þetta svara ekki spurningu þinni ráðlegg ég þér að hafa samband við ungbarnavernd á þinni heilsugæslu.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.
Hæ ég var að fá mér naflalokk og er með barn á brjósti ég hugsaði ekki mikið úti þetta en er í lagi að vera ný komin með lokk og hafa barn á brjósti? Ef ekki hvað gét ég gert
Almennt er ráðlagt að bíða með nýja líkamsgötun þar til nokkrum mánuðum eftir að þú hættir að gefa brjóst þar sem hormónaáhrif brjóstagjafar geta haft áhrif á ofnæmiskerfið þitt og gert þig líklegri til að fá sýkingu. Ég ráðlegg þér að gæta vel að hreinlæti við nýja gatið í von um að koma í veg fyrir sýkingu og hafa lágan þröskuld að tala við hjúkrunarfræðing/lækni gruni þig byrjandi sýkingu. Gangi þér vel.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir
Góða kvöldið Ég er ólétt af barni númer 2 og er með svo mikla togverki sem minn á turverki ( er gengin um 4 vikur ) Er að velta fyrir mér er eðlilegt að þetta sé svona mikið ? Ég man ekki eftir svona miklum á fyrri meðgöngu. Eða geta þeir orðið meiri á seinni meðgöngu ? Kær kveðja -H
Togverkir gera oft vart við sig á fyrsta þriðjungi meðgöngu þó svo sumir þungaðir einstaklingar finni fyrst fyrir toverkjum á öðrum þriðjungi. Togverkir eru eðlilegir og ekki hættulegir móður né barn þó þeir geti verið sársaukafullir.
Túrverkir eru yfirleitt annað en eru sömuleiðis algengir á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Þeir eru yfirleitt af völdum hormónabreytinga og þeirra breytinga sem eiga sér stað í upphafi meðgöngu. Túrverkir á þessum tíma geta einnig verið vísbending um fósturlát og hvet ég þig að hafa samband við ljósmóður/lækni fari að blæða eða hafir þú frekari áhyggjur/spurningar um þá verkir sem þú upplifir.
Er í lagi að fá sér neglur á megöngu? Er annaðhvort gel eða akrýl betra á meðgöngu?
Það er ekkert sem bendir til þess að gel eða akrýl neglur séu skaðlegar fyrir þungaða einstaklinga. Því ættu báðar gerðir að vera í lagi á meðgöngu.
Góðan daginn Ég for til kvennsjukdomalæknis fyrir 2 dögum ( 24 ágúst ) sem sagði að hann sæi einhverja loftbólu í leginu en gat ekki staðfest þungun. Ég tek svo óléttu próf næsta dag og fæ daufa linu sem er aðeins búin að dekkjast í dag. ( 26 ágúst) Seinustu blæðingar voru 24 júlí og á ég að byrja á blæðingum á þriðjudaginn næsta. Ég hélt ég væri komin þá 4 vikur og einhverja daga en samkvæmt hér á síðunni er ég ekki nema 3 vikur og nokkra daga ? Hvort er það ? Og svo annað er eðlilegt að línan sé dauf á 3 eða 4 viku ? Því ég veit ekkert hvað ég er þá gengin langt ? Takk :)
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina og til hamingju með þungunina.
Reiknivélin hér á síðunni tekur með í reikninginn lengd tíðahrings. Ef tíðahringurinn er almennt lengri getur það haft áhrif á egglostímabil og þar með hvenær krílið kom undir. Það er þó kannski ekki hægt að setja nákvæman dag með þessari reiknivél en ef tíðahringur hefur verið reglulegur getur hún gefið upp væntanlegan settan fæðingardag barnsins. Þú ert líklega gengin um 3-4 vikur. Erfitt er að segja til um nákvæmari tíma fyrr en hægt er að fara í snemmsónar/fósturgreiningu.
Það er eðlilegt að línan sé dauf á þungunarprófum fyrst um sinn. Eitt jákvætt þungunarpróf merkir þungun og því oftast óþarfi að taka önnur próf. Þó það geti hjálpað huganum að átta sig á þunguninni.
Þegar farið er mjög snemma í snemm sónar eða sónar snemma á meðgöngu þá er sést yfirleitt ekki fóstur með hjartslætti. Það er eðlilegt fyrir 5-6 vikna meðgöngu. Þá sést oft fóstursekkur og nestispoki.
Gangi þér vel og bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.
Ég hef verið að nota melanotan í nokkra mánuði og vildi tékka hvort það má á meðgöngu
Ekki eru til nægilegar rannsóknir um notkun melanotan á meðgöngu og því er ráðlagt frá því. Ég ráðlegg þér að ræða við ljósmóður í meðgönguvernd frekar um efnið. Gangi þér vel.
Bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.