Þrjú stig fæðingar

Fæðingunni, frá því fyrsu reglulegir samdrættir byrja þar til barnið og fylgjan eru fædd, er skipt upp í þrjú stig:

1. stig: Útvíkkunartímabilið

Fyrsta stigið hefst þegar reglulegar hríðar byrja. Vegna hríðanna fer leghálsinn að opnast, styttast og þynnast og undirbúa sig undir að barnið komist þar út. Útvíkkun er metin frá 1 upp í 10 og fysta stiginu lýkur þegar fullri útvíkkun leghálsins er náð eða hún er orðin 10, en þá er leghálsinn ekki lengur fyrirstaða fyrir því að barnið komist í heiminn.

2. stig: Rembingstímabilið

Annað stigið hefst þegar konan byrjar að fá rembingstilfinningu og fer að remba barninu í heiminn. Þessu stigi lýkur svo þegar barnið fæðist.

3. stig: Fæðing fylgjunnar

Þriðja stigið hefst um leið og barnið er fætt og því lýkur þegar fylgjan og belgirnir eru fædd. Sjá nánar í bæklingnum „Þriðja stig fæðingar. Hvaða val hef ég um meðferð?" í bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands.

Tímalengd stiganna þriggja

Þetta er mjög mismunandi eftir fæðingum og það er ekki hægt að koma fram með einhverjar heilagar tölur um þetta. Í raun ætti ekki að setja fram neinar tölur, því hver fæðing á að fá að taka sinn tíma svo lengi sem móður og barni heilsast vel. Tímaramminn sem hefur verið settur fram lítur svona út:

Frumbyrjur:

  • 1. stig = 12-14 klst.
  • 2. stig = 60 mín.
  • 3 stig = 20-30 mín.

Fjölbyrjur:

  • 1. stig = 6-10 klst.
  • 2. stig = allt að 30 mín.
  • 3. stig = 20-30 mín.