Frjósemi

Náttúruleg frjósemi

Flest pör sem reyna að geta barns verða ólétt eftir fyrstu 6 tíðahringina eða um 80%, eftir fyrstu 12 tíðahringina eru 85% para orðin ólétt. Á næstu 36 mánuðum verða 50% para sem eftir eru ólétt. Þau 5-7% sem hafa ekki orðið ólétt eftir 48 mánuði munu aðeins stöku sinnum verða ólétt sjálfkrafa eða án hjálpar.

Hvenær í tíðahringnum er frjósamt tímabil?

Frjósama tímabilið er um það bil sex dagar, það byrjar um 5 dögum fyrir egglos og stendur fram að egglosdegi. Mestar líkur eru á þungun ef samfarir eiga sér stað einum til tveimur dögum fyrir egglos eða á egglosdegi. Hægt er að reyna að sjá fyrir egglosdaginn með því að fylgjast með breytingum á útferð, þar sem mestar líkur eru á getnaði þegar hámarksframleiðsla verður á glærri sleipri útferð eða svokallaðri eggjahvítu útferð. Einnig er hægt að fylgjast með egglosi með því að nota egglospróf sem mæla styrk LH (luteinizing homrone) í þvagi. Ekki hefur þó verið sýnt fram á að notkun slíkra prófa auki líkur á getnaði, hjá konum með óreglulegan tíðahring eða pörum sem hafa sjaldan samfarir geta egglospróf þvert á móti lengt tímann þar til par verður ólétt.

Hversu oft er ráðlagt að hafa samfarir?

Mestar líkur eru á getnaði þegar pör hafa samfarir annan hvern eða hvern dag, en reglulegar samfarir tvisvar til þrisvar í viku frá því fljótlega eftir að blæðingar hætta, ætti að tryggja að samfarir verði innan frjósama tímabilsins og að gæði sæðisins séu sem best. Rannsóknir benda til þess að gæði sæðis eru best, hvað hreyfanleika, form og magn varðar þegar tveir til þrír dagar líða á milli sáðláta, en lengra bil á milli sáðláta tengist lægri tíðni þungana.

Sleipiefni

Sum sleipiefni minnka hreyfanleika sæðis á rannsóknastofu, svo sem KY gel, Astroglide, Touch, Replens, ólífuolía og munnvatn. Hinsvegar sýndi rannsókn á pörum, þar sem skoðaður var tími fram að þungun, engan mun á líkum á getnaði hvort sem notað var sleipiefni (Astroglide, KY gel eða Pre-seed) eða ekki. Þrátt fyrir þetta væri skynsamlegt að nota sleipiefni sem hindra ekki hreyfanleika sæðis, til dæmis mineral olíu, canola olíu eða hydroxyethilcellulose-base (Pre-Seed).

Þættir er varða samfarir

Kynlífsstelling, hvort konan fái fullnægingu eða ekki eða stelling konu eftir samfarir (t.d. að bíða í liggjandi stöðu) virðist ekki hafa áhrif á líkur á getnaði.

Aldur

Að seinka barneignum getur haft áhrif á líkur á getnaði. Konur sem nálgast fertugt eru um 40% minna frjósamar heldur en konur rúmlega tvítugar til dæmis. Aldur karla hefur einnig smávægileg áhrif, sérstaklega eftir fimmtugt. Í vel gerðri rannsókn voru líkurnar á getnaði eftir samfarir á frjósömustu dögum tíðahringsins 50%, 40% og 30% hjá konum 19-26 ára, 27-34 ára og 35-39 ára ef karlinn var á sama aldri. Ef karlinn var 5 árum eldri en konan voru líkurnar 45%, 40% og 15%.

Valmynd