Áhyggjur

Ótti tengdur meðgöngu og fæðingu er eitthvað sem hefur lengi þekkst. Flestir þekkja eina elstu heimildina um þetta úr sköpunarsögunni, þegar Guð lofaði Evu því, að "hann skyldi gera þjáningu hennar er hún yrði barnshafandi mikla og hún myndi fæða öll sín börn með mikilli þraut" eftir að hún og Adam höfðu fengið sér bita af eplinu frá Skilningstrénu.

Ótti getur verið bæði góður og slæmur. Hann getur ýtt undir að maður framkvæmi eitthvað eða komið í veg fyrir það. Vægur ótti eða smá áhyggjur geta orðið til þess að maður leiti sér upplýsinga um það sem maður óttast og vinni þannig á óttanum.

Smá ótti eða áhyggjur geta til dæmis ýtt undir að verðandi foreldrar leiti sér upplýsinga á meðgöngunni. Þessar upplýsingar geta verið varðandi matarræði, hvernig er æskilegt að foreldrar hegði sér á meðgöngu (hvað "má" eða "má ekki"), upplýsingar um hvað er að gerast á hverjum tíma meðgöngunnar eða til að fá upplýsingar um ákveðin einkenni sem konan finnur fyrir. Þannig getur þessi ótti eða áhyggjur verið liður í undirbúningnum undir foreldrahlutverkið.

Ef þessi ótti er hins vegar það mikill að hinir verðandi foreldrar geta ekki notið þeirrar stórkostlegu lífsreynslu sem meðgangan og að ala barn er, er hann orðinn hindrun sem þarf að fjarlægja.

Í lokaverkefni til embættisprófs í ljósmóðurfræði var ótti skoðaður í sögulegu og samfélagslegu samhengi, auk þess sem rannsóknir voru skoðaðar með tilliti til þess hvað það er sem konur óttast, hvers vegna og hvaða áhrif hann hefur. Einnig voru skoðaðar aðferðir við að draga úr þessum ótta.

Heimild

Guðrún Sigríður Ólafsdóttir (2003) Ótti tengdur meðgöngu og fæðingu. Lokaverkefni til embættisprófs í ljosmóðurfræði. Háskóli Íslands: Hjúkrunarfræðideild