Kynlíf

Í stuttu máli er allt í lagi að stunda kynlíf á meðgöngu. Miklar breytingar geta þó orðið á þessu tímabili á kynlífi fólks. Löngunin getur minnkað eða aukist bæði hjá konum og körlum.

Fyrstu þrír mánuðirnir

Oft minnkar kynlöngun konunnar fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar. Það getur verið vegna þreytu, deyfðar, ógleði, uppkasta, hræðslu við fósturlát eða eymsla í brjóstum. Ekki hefur verið sýnt fram á tengsl milli samfara og fósturláts.

Hjá öðrum konum eykst kynlöngun þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af getnaðarvörnum. Aukinn þrýstingur og blóðflæði í grindarholi getur hjálpað konunni að fá fullnægingu. Auk þess verða hormónabreytingar sem leiða til aukinnar slímmyndunar í leggöngum og getur konan upplifað aukin viðbrögð. Þessar breytingar geta aukið kynlöngun konunnar.

Stundum dregur úr kynlöngun karlmannsins vegna líkamlegra breytinga hjá konunni. Hann hefur hugsanlega áhyggjur af að meiða konuna eða skaða fóstrið. Það er hinsvegar engin hætta á því þar sem barnið er vel varið af leghálsi, belgum og legvatni. Álag sem karlmaðurinn er undir vegna þungunarinnar og það að vita af þriðju persónunni nálægt getur dregið úr áhuga hans á kynlífi.

Oft eykst kynlöngun mannsins á þessu tímabili. Hann finnur jafnvel fyrir stolti, finnst líkami konunnar blómstra og þarf ekki að hafa áhyggjur af getnaðarvörnum.

Á meðgöngu finna margir (sérstaklega konur) fyrir aukinni þörf fyrir kossa, faðmlög, hlýju og ástúð í annarri mynd en við samfarir. Mikilvægt er að verðandi foreldrar tali saman um líðan sína, óskir og þrár til að bæði skilji hvort annað og ekki komi upp misskilningur og vandamál.

Næstu þrír mánuðirnir

Á þessu tímabili verða breytingar á líkama konunnar sjáanlegar og fer það mikið eftir því hvernig verðandi foreldrar bregðast við þessum breytingum og þunguninni almennt hvernig kynlíf þeirra er á þessu tímabili. Sumir eru stoltir af stækkandi kvið konunnar og meðgöngunni og getur það haft jákvæð áhrif á kynlífið. Á sama hátt getur það hamlað kynlöngun ef verðandi foreldrum finnst konan hafa fitnað. Sumum karlmönnum finnst líkami konu sem gengur með barn einfaldlega ekki aðlaðandi. Á þessu tímabili upplifir konan oft sínar mestu skapsveiflur sem geta haft áhrif á kynlíf parsins.

Ástæður þess að áhugi á kynlífi eykst aftur hjá konum getur verið að þær:

  • aðlagist hugmyndinni að vera barnshafandi.
  • hafi minni ógleði og uppköst.
  • hafi minni eymsli í brjóstum.
  • hafi enn ekki svo stóra kúlu að hún trufli samfarir.

Síðustu þrír mánuðirnir

Algengt er að mest dragi úr kynlöngun á þessu tímabili. Kúlan er orðin það stór að hún hefur truflandi áhrif á samfarir og vandamál varðandi stellingar koma upp. Einnig geta ýmis óþægindi konunnar haft hamlandi áhrif á kynlífið. Konan getur einnig verið upptekin af ófædda barninu og fæðingunni sem nálgast.

Áhyggjur verðandi foreldra af því að samfarir komi fæðingu af stað fyrir tímann geta dregið úr kynlöngun. Í enda meðgöngu geta hormón í sæði og samdrættir í legi við fullnægingu hjálpað til við að koma fæðingu af stað en fleiri þættir þurfa að vera til staðar og því geta samfarir einar og sér ekki framkallað fæðingu. Það getur einnig valdið hræðslu verðandi foreldra að sjá örlítið blóðugt slím eftir samfarir. Það er þó algegnt og skaðlaust þar sem leghálsinn er mjög blóðríkur og gljúpur á þessu tímabili og blæðir mjög auðveldlega frá honum.

Á síðasta hluta meðgöngunnar getur verið nauðsynlegt að breyta stellingum við samfarir. Hvaða stellingar sem parinu finnst þægilegar og valda ekki þrýstingi á kúluna, eru í lagi. Stellingar sem gætu hentað eru hlið við hlið lega, konan ofan á eða T-lega þar sem maðurinn liggur á hlið og konan á bakinu.

Í hvaða tilvikum ætti að forðast samfarir?

Félagslegar aðstæður, trú eða menning geta valdið því að fólk kýs að stunda ekki kynlíf á meðgöngu. Það eru hinsvegar engar líkamlegar ástæður til að halda sig frá samförum á meðgöngu nema saga um sýkingar, blæðing eða fyrri saga um fósturlát en í þessum tilfellum ætti fólk að ráðfæra sig við ljósmóður eða lækni.

Valmynd