Áhyggjur af mjólkurmagni

Í rannsókn eftir rannsókn hefur komið fram að algengasta ástæða sem mæður gefa fyrir að hætta brjóstagjöf  er að þær telja sig ekki hafa næga mjólk.  Það skrýtna er að þessi ótti er raunverulega ástæðulaus. 

Hvers vegna hafa þá svo margar mæður áhyggjur af mjólkurbirgðum sínum?   Það virðist fylgja hlutverkinu.  Það er ekki til sú móðir sem ekki hefur einhvern tíma haft áhyggjur af því hvort barn hennar væri að borða nóg.  Börn eiga líka þátt í að valda mæðrum áhyggjum af mjólkurbirgðum sínum.  Þegar börn kvarta við brjóstið, sjúga í lengri tíma eða virðast allt í einu sjúga mun oftar, er auðvelt að ætla að vandamálið sé mjólkurmagnið.  Í raun á þessi hegðun sér venjulega aðra skýringu.  Til dæmis getur verið að mjólkurlosunarviðbragðið komi ekki eins hratt og barnið myndi vilja, barnið er þreytt eða yfir sig æst og þarf að sjúga lengur til að ná sér niður, barnið þarfnast kannski nálægðar eða kelitíma til að komast yfir spennu sem það skynjar í umhverfinu eða því líður einfaldlega ekki vel.  

Vaxtarsprettir eru ein skýring á auknum sogtíma barna.  Þau sjúga oftar til að örva brjóst til að framleiða aukna mjólk.  Vaxtarsprettir virðast koma oftast um 2-3 vikna, 6 vikna og 3 mánaða aldur.  Barn gæti viljað sjúga á klukkutíma fresti í 1-2 daga en fellur síðan aftur hægt í sama gjafafjölda og áður.  

Sogmynstur barns og líkamsstarfssemi móður getur breyst með tímanum.  Barn getur orðið tæknilegra færara um að ná meira mjólkurmagni á styttri tíma og þannig verið að fá nóg að drekka.  

Þegar mjólkurframleiðsla móður hefur aðlagast kröfum barnsins finnst móður brjóstin verða mýkri og hún finnur ekki fyllingu milli gjafa jafnvel þótt þau séu að framleiða sama eða meira magn mjólkur.  Leki úr brjóstum verður líka minni eftir því sem tíminn líður og hefur ekkert með mjólkurviðbragðið að gera.   Sömuleiðis er með það að finna fyrir mjólkurlosunarviðbragði.


Katrín Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi.
Heimild: Breastfeeding pure and simple, 2000.

 

Deila