Aukavörtur/brjóstvefur

   Brjóstvefurinn teygir sig upp í handarkrikann í tungu eða horn hjá mörgum konum. Mjólk framleiðist í þessum vef og rennur fram í gangakerfið. Einstaka kona fær ákveðinn og óþægilegan stálma í þetta svæði sem oft verður verri við notkun brjóstahaldara sem þrengja að göngum og hindra eðlilegt flæði. Stíflaðir mjólkurgangar og brjóstabólga geta komið í þessa tungu. Kaldir bakstrar og Íbúfen draga úr þrota og bætir líðan. Brjóst eru vökvarík líffæri og viðkvæm fyrir áverkum og þrota. Þegar þroti myndast veldur það hindrun bæði á blóðrás og sogæðakerfi. Slík vökvahindrun veldur staðbundinni bólgu, verkjum og hættu á sýkingu. Af þessari ástæðu er mikilvægt fyrir konur með brjóstvef í handarkrika að forðast  föt sem þrengja að eða brjóstahaldara sem þrýstir að vefnum á stálmatíma.


   Aukabrjóstvefur, gangar og vörtur geta verið hvar sem er á svokallaðri mjólkurlínu sem liggur frá handarkrika niður í  nára. Aukavefur getur mjólkað.Hann líkist eðlilegum kirtilvef en er alveg aðskilinn frá hinum eiginlega brjóstvef. Þetta eru eðlileg frávik á sköpunarverkinu og ekki álitið sjúklegt. Þar sem ekki er útrás fyrir framleidda mjólk í aukavef “þornar” mjólkin upp líkt og við afvenjun og eymslin minnka smám saman. Sjálf brjóstin verða ekki fyrir neinum áhrifum. Það er þekkt að konur finna ekki fyrir einkennum fyrr en eftir eitt eða fleiri börn.

   Aukamjólkurgangar geta opnast hvar sem er á mjólkurlínunni. Þeim tengist hvorki brjóst eða vörtuvefur. Þeir geta lekið í brjóstagjöf.

  Aukavörtur eru oft ófullkomnar að formi og líkjast hverjum öðrum fæðingarbletti. Þær liggja á mjólkurlínunni og eru algengastar í undirbrjóstsfellingunni. Lítill ganga og kirtilvefur er undir og mjólkurdropar geta sést við losunarviðbragð. Slíkur vefur getur þó sjaldnast framleitt eitthvert magn mjólkur. Mæður geta verið fullvissar um það að aukabrjóst og aukavörtur munu ekki trufla brjóstagjöf þó einstaka sinnum geti myndast brjóstabólga í slíkum vef sem þarfnast meðferðar. Velformaðar aukavörtur sjást stöku sinnum en slíkt liggur gjarna í ættum. Slíkum aukavörtum  eru tengdir gallar á þvagrásarkerfi.

Deila