Brjóstakorn

Berklar og brjóstagjöf

12.maí 2015

Berklar eru sýking af völdum „Myobacterum tuberculosis“ og er að verða æ algengari
aftur eftir að álitið var að þeir væru að hverfa úr sjúkdómasögu heimsins.

Það er ólíklegt að bakterían komist í móðurmjólk vegna þess að hún er ólíkleg til að komast í blóð móður.  Hún sést yfirleitt eingöngu í blóði ungra barna sem hafa veiklað ónæmiskerfi og eru vannærð.  Berklar í brjósti eru til en eru svo sjaldgæfir að jafnvel í Afríku þar sem berklar eru útbreiddir sjást þeir afar sjaldan.

Ef móðir hóstar upp slími með bakteríum í er hún mjög smitandi.  Til allrar hamingju gera nútíma berklalyf það að verkum að bakteríur í slími hverfa innan fárra vikna.

En hvað um barnið og brjóstagjöfina?  Mjólkin sjálf er ekki sýkt svo barnið getur fengið hana.  Varðandi samneyti móður og barns eru skiptar skoðanir.  Sumir segja að ef móðir hefur bakteríur í slími sem hún hóstar upp eigi að aðskilja móður og barn en aðrir segja að móðir eigi að fá meðferð við fyrsta tækifæri og hún eigi að hafa á brjósti og nota grímu við gjafir.  Barnið á að fá bólusetningu og jafnvel berklalyf.

Hvað varðar berklalyf móðurinnar þá eru lyfin sem notuð eru fyrir móður þau sömu og eru notuð fyrir ungbörn. 

Í stuttu máli: Þegar móðir hefur berkla getur hún og ætti að hafa barnið sitt á brjósti.


Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Heimild: Newman, J. & Ptiman, T. (2000).  The Ultimate Breastfeeding Book of Answers.

 

Valmynd