Brjóstakorn

Brjóstahöfnun

12.maí 2015

Kerlingarbók: Ef barn getur ekki tekið brjóst fyrstu dagana eftir fæðingu þá mun það aldrei taka brjóst og það borgar sig ekki að halda áfram að reyna.

Staðreynd: Það er ekki óvenjulegt fyrir barn sem neitar í byrjun að byrja brjóstagjöf seinna. Það borgar sig örugglega að reyna áfram. Þegar móðir hefur nægar mjólkurbirgðir mun barn nær alltaf á endanum taka brjóstið af sjálfsdáðum í síðasta lagi við 4-6 vikna aldurinn.

Þegar barn getur ekki tekið brjóst getur það verið ergilegt og dregið úr kjarki móður og allra í kringum hana. Mörgum konum finnst það persónulegt eins og börnin séu að hafna þeim. Það getur hjálpað þeim að vita að þessi hegðun er ekki þeim að kenna og þetta er næstum alltaf tímabundið vandamál. Barnið mun læra að sjúga ef því er sýnd þolinmæði og gefinn tími.

Það er ekki ljóst af hverju sum börn virðast ekki geta tekið brjóstið. Kannski er ekki líklegt að einhver einn þáttur geti komið barninu til að hafna brjóstinu en þegar tveir eða þrír þætti koma saman geta samsöfnuð áhrif valdið því að barninu finnst ómögulegt að taka brjóst.

Það er athyglisvert að þegar börn fæðast án mikilla inngripa eiga þau sjaldnast í vandræðum með að grípa. Og þó að það sé betra en ekkert að móðir og barn fái nokkrar mínútur saman eftir fæðinguna er það í mörgum tilfellum ekki nóg. Ef barnið byrjar að sjúga ætti það að fá frið þar til að það sleppir eða sofnar frekar en vera tekið af að því að einhverju ímynduðu tímatakmarki er náð.

Þegar barn er tekið frá móður án þess að vera boðið brjóstið og komið með það aftur eftir margar klukkustundir getur það neitað brjóstinu. Stundum hunsa þessi börn brjóstið eins og þau viti ekki hvað þau eigi að gera, önnur snúa höfðinu fram og til baka eins og þau séu að leita einhvers en þekkja það ekki þó það sé beint fyrir framan þau.

Börn grípa þar sem þau fá gott mjólkurflæði. Þannig að ef barn fer á brjóst og flæði er lítið eða ekkert grípur það kannski en ekki vel. Þau eru ófær um að ná mikilli mjólk svo þau japla í smá stund og sofna svo. Þetta er líklega staðan hjá mörgum börnum á fyrstu dögunum þar til mjólk móðurinnar fer að aukast.

Barnið berst um og slæst eða það verður máttlaust og virðist sofna. Það getur jafnvel gert bæði í einni gjöf. Þegar barn berst um er öllum augljóst að það hefur ekki gripið. En ef barn aðeins nartar eða sefur við brjóstið getur verið að það sé ekki eins áberandi fyrir óreynda eða móðurina að sjá að barnið er ekki að fá neitt. Þetta getur valdið ónauðsynlegu þyngdartapi barnsins. 

Mæður hafa næga mjólk fyrir börn sín á fyrstu dögunum. En barnið verður að grípa vel til að ná henni.

Ýmsir þættir geta stuðlað að brjóstahöfnun nýbura. Verða hér taldir upp nokkrir þættir án þess að um tæmandi lista sé að ræða.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Úr “The ultimate breastfeeding book of answers” 2000 Newman, Pitman.

Valmynd