Brjóstakorn

Brjóstakýli (abscess)

12.maí 2015

Brjóstakýli í brjóstagjöf er læknisfræðilegt vandamál sem oftast er afleiðing ófullnægjandi meðferðar við brjóstabólgu (mastitis) eða brjóstabólgu sem lætur ekki undan meðferð. Um 3% kvenna með brjóstabólgu fá brjóstakýli.  Um er að ræða sýkingu sem hefur valdið graftarpolli í brjóstvef. Stundum lekur smávegis gröftur úr geirvörtunni.

Brjóstakýli myndast þegar einkenni brjóstabólgu dvína ekki þrátt fyrir sýklalyfjameðferð heldur breytist þéttingin í brjóstinu í afmarkaða kúlu sem getur valdið allt frá litlum eymslum upp í verulega slæma verki.  Roðinn getur haldist eins, aukist eða horfið.  Hitinn getur lækkað og almennur lasleiki viðhelst.

Greining er gerð með þreifingu og ómskoðun á brósti. Ómskoðun sýnir staðsetningu og legu kýlisins. Afmörkuð vökvasöfnun sést sem hægt er að tæma út með ástungu. Stundum þarf að endurtaka ástungu.  Mikilvægt er að hætta ekki brjóstagjöf snögglega á þessum tíma þar sem það getur gert ástandið verra.  Sýklalyf eru gefin samhliða og mælt með hvíld og áframhaldandi brjóstagjöf.

Ef gerð er ástunga með nál þarf aðeins staðdeyfingu.  Síðan er stungið á kýlið og dreginn út gröftur.  Eftir á þarf engar umbúðir nema í mesta lagi lítinn plástur.  Konan fer síðan heim. Ef endurteknar ástungur skila ekki árangri getur þurft að opna kýlið á skurðstofu og setja inn dren. Sjúkrahúslega er yfirleitt hálfur dagur eða heillBarnið á rétt á að vera hjá móður sinni á sjúkrahúsinu þar sem það er alfarið háð henni um alla næringu.  Þegar gröftur hættir að seytla úr dreninu er það fjarlægt (oftast eftir 1-4 daga). 

Mikilvægt er að halda áfram brjóstagjöf hvort sem kýli er fjarlægt með ástungu eða skurði, þar sem hún kemur í veg fyrir að brjóstin fyllist og ný brjóstabólga myndist.  Það getur því tafið fyrir batanum ef konan hættir brjóstagjöf á þessu tímabili.  Ef skurðsár er við vörtu þannig að það lendi upp í barni eða að það er eindreginn vilji móður, má mjólka brjóstið tímabundið eða hætta brjóstagjöf alveg á því brjóstinu sem skorið var í en gjöf haldið áfram á hinu.  Ef móðir ákveður að hætta brjóstagjöf þeim megin sem skurðurinn er ætti að hvetja hana til að mjólka það brjóst annað slagið á meðan framleiðslan dvínar þannig að þrýstingur verði aldrei til verulegra óþæginda. 

Ef brjóstakýli er batnandi er mælt með að klára 7-10 daga sýklalyfjameðferð. Konur geta fengið tíma hjá brjóstaráðgjafa sem fylgir konunni eftir með símtali eða kemur í vitjun.

 Febrúar 2020

Valmynd