Brjóstakorn

Brjóstakýli

12.maí 2015

Brjóstakýli í brjóstagjöf er læknisfræðilegt vandamál sem oftast er afleiðing ófullnægjandi meðferðar við brjóstabólgu eða brjóstabólgu sem lætur ekki undan meðferð (sjaldgæft).

Brjóstakýli myndast þegar einkenni brjóstabólgu dvína ekki þrátt fyrir meðferð heldur breytist þéttingin í brjóstinu í afmarkaða kúlu sem getur valdið allt frá litlum eymslum upp í verulega slæma verki.  Roðinn getur haldist eins, aukist eða horfið.  Hitinn getur lækkað og haldist sem mallhiti.  Almennur lasleiki viðhelst.

Brjóstakýli myndast í um 5-11% tilfella af brjóstabólgum og lýsir sér með staðbundnum graftarpolli án útrásar.  Stundum lekur smávegis gröftur úr geirvörtunni.

Greining er gerð með þreifingu eða sónarskoðun.  Sónar, gerður er af  sérfræðingi sem vanur er mjólkandi brjóstum, hefur sýnt sig að vera besta greiningaraðferðin.  Sónarskoðun sýnir líka staðsetningu og legu kýlisins og ef hún er gerð áður en stungið er eða skorið á kýlið er hægt að hlífa konunni við óþarfa skurðum.  Mikilvægt er að hætta ekki brjóstagjöf snögglega á þessum tíma þar sem það getur gert ástandið verra.  Þar til nýlega var álitið að eina áhrifaríka aðferðin við brjóstakýlum væri skurður og tæming.  En rannsóknir benda til að í mörgum tilfellum geti ástunga með nál og tæming eftir sónarmynd (mun minna inngrip) leyst upp kýlið án þess að skurður komi til. Samkvæmt rannsóknum virðist sem minni kýlin leysist frekar með ástungu en að það dugi síður með stærri kýlin.  Yfirleitt eru sýklalyf gefin samhliða og mælt með hvíld og áframhaldandi brjóstagjöf.

Ef gerð er ástunga með nál þarf aðeins staðdeyfingu t.d. með Emlakremi.  Síðan er stungið á kýlið og dreginn út gröftur.  Eftir á þarf engar umbúðir nema í mesta lagi lítinn plástur.  Konan fer síðan heim. Ef gerður er skurður þarf að svæfa konuna og vinna við dauðhreinsaðar aðstæður. Yfirleitt reyna læknar að láta skurðinn liggja eins og mjólkurkirtlarnir liggja, svo ekki sé skorið þvert á þá.  Þeir reyna líka að hafa skurðinn eins langt frá vörtunni og hægt er svo skurðurinn eða umbúðir yfir honum trufli brjóstagjöf sem minnst.  Eftir aðgerðina er dren oftast látið liggja úr kýlinu út á húðina til að koma í veg fyrir að kýlið myndist aftur.  Sjúkrahúslega er yfirleitt hálfur dagur eða heill.  Samkvæmt  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á barnið rétt á að vera hjá móður sinni á sjúkrahúsinu þar sem það er alfarið háð henni um alla næringu.  Þegar gröftur hættir að seytla úr dreninu er það fjarlægt (oftast eftir 1-4 daga).  Áfram getur runnið mjólk úr skurðsárinu, jafnvel vikum saman, án þess að nokkuð sé óeðlilegt við það.  Móðurmjólkin hefur bakteríudrepandi  eiginleika svo lítil hætta er á að sýking komi í sárið.  Þessi sár gróa en geta gróið hægar en önnur sár.

Mikilvægt er að halda áfram brjóstagjöf hvort sem kýli er farlægt með ástungu eða skurði, þar sem hún kemur í veg fyrir að brjóstin fyllist og ný brjóstabólga myndist.  Það getur því tafið fyrir batanum ef konan hættir brjóstagjöf á þessu tímabili.  Ef skurðsár er við vörtu þannig að það lendi upp í barni eða að það er eindreginn vilji móður, má mjólka brjóstið tímabundið eða hætta brjóstagjöf alveg á því brjóstinu sem skorið var í en gjöf haldið áfram á hinu.  Brjóstin eru tveir aðskildir kirtlar og óháðir hvor öðrum varðandi framleiðslu.  Ef móðir ákveður að hætta brjóstagjöf þeim megin sem skurðurinn er ætti að hvetja hana til að mjólka það brjóst annað slagið á meðan framleiðslan dvínar þannig að þrýstingur verði aldrei til verulegra óþæginda.  Ekki er raunhæft að ætla að reyna að binda annað brjóstið upp og ekki þýðir að gefa þurrktöflur í þessum tilfellum. 

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi, desember 2003.

Valmynd