Brjóstakorn

Brjóstastíflur og brjóstabólgur

12.maí 2015

Brjóstastífla eða brjóstabólga kemur fram sem aumur blettur eða hnútur í brjósti.  Hver sem orsökin er byggist meðferðin á 3 grundvallar atriðum;
HITI -  HVÍLD – ÖRAR GJAFIR

Orsakir stíflu geta verið margar t.d. röng staðsetning barns við brjóstið, löng hlé milli gjafa, ábótargjöf, ofnotkun snuðs, þröngur brjóstahaldari eða annar fatnaður sem þrengir að brjóstum eða þornuð mjólk fyrir opi mjólkurgangs.

Meðferð
Við fyrstu merki stíflu er hvíld nauðsynleg.  Best að skríða upp í rúm með barnið og vera þar það sem eftir er dags.  Stífla getur verið fyrsta merki um að of mikið sé færst í fang.  Fyrir utan hvíld er hægt að gera fleira eins og að leggja þurran eða blautan hita við svæðið og þvo burt allan hugsanlega þornaða mjólk.  Hita er best að nota fyrir gjöf.  Leggja barnið oft á veika brjóstið, helst á 2 klukkustunda fresti – líka á nóttunni.  Láta höku barnsins benda á stífluna.  Losa um þröngan fatnað, sérstaklega brjóstahaldara og jafnvel sleppa honum í nokkra daga.  Tegund brjóstahaldara skiptir ekki máli – heldur er það stærðin sem skiptir máli.  Athugaðu staðsetningu barnsins við brjóstið.  Það þarf að snúa að móður með munn í hæð við vörtu.  Breytilegar brjóstagjafastöður eru líka til bóta.

Snögg og rétt meðferð á stíflum kemur í veg fyrir brjóstabólgur.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.

 

Valmynd