Brjóstakorn

Eitt brjóst eða tvö?

12.maí 2015

Flestum mæðrum finnst betra að bjóða barni bæði brjóst í hverri gjöf fyrstu dagana.  Sog barnsins örvar mjólkurframleiðslu og gjöf beggja brjósta hjálpar til að koma í veg fyrir þan og stálma í brjóstum. 

Í hverri gjöf er best að breyta um byrjunarbrjóst.  Ef fyrst er gefið hægra brjóst og svo skipt yfir á vinstra, ætti að breyta röðinni í næstu gjöf.  Til að muna hvaða brjóst var síðast gefið má nota ráð eins og nælingu nælu, brot á brjóstainnleggi, skipta hring milli handa o.s.frv.  Ef það gleymist er þó enginn skaði skeður!! 

Stundum er mæðrum sagt að tæma brjóst sín alveg eftir hverja gjöf með mjólkun þeirrar mjólkur sem barnið skilur eftir.  Þetta er ekki raunhæft.  Í fyrsta lagi er mjólkandi brjóst aldrei tæmt og í öðru lagi hefur sú móðir heilbrigðs barns sem telur að slík tæming sé nauðsynleg til að byggja upp mjólkurbirgðirnar ekki fundist enn.  Í þeim tilfellum sem barn sýgur ekki vel í byrjun, eins og er með flesta fyrirbura og einstaka fullburða barn, gæti þurft að mjólka eftir hverja gjöf til að veita nægilega örvun til að halda uppi mjólkurbirgðum af eigin mjólk. 
Þegar brjóstagjöf er komin vel á veg fara margar mæður yfir í það að gefa aðeins annað brjóstið í gjöf.  Það tryggir að barnið fær fituríku mjólkina sem kemur í seinni hluta gjafar.  Þó er alltaf hluti mæðra sem heldur áfram að gefa bæði brjóst í hverri gjöf. Sumar eru með börn sem eru lengi að drekka.  Sumar eru með lítil brjóst eða hafa farið í brjóstaaðgerð og enn aðrar bara kjósa það að hafa þennan háttinn á. 

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi. 
Heimild: The womanly art of breastfeeding.

Valmynd