Fótboltastaða og hliðarlega

Fótboltastaða við brjóstagjöf
Móðir hefur þéttan púða við hlið sína til að barn sé lárétt í hæð við brjóst móður sinnar. Barn snýr að móður og líkami þess er undir handlegg hennar og meðfram hlið hennar. Rass barnsins hvílir við bak stólsins, sófans eða veggsins sem setið er upp við. Efra bak barns hvílir á framhandlegg móður og hún styður við háls þess með höndinni.

Þetta er mjög gagnleg staða fyrir konur sem farið hafa í keisaraskurð því barnið kemur hvergi nærri skurðsárinu. Hún er líka góð fyrir mæður með flatar eða inndregnar vörtur og börn með grip eða sogvandamál því móðir hefur betri yfirsýn yfir brjóst og barn. Hún hefur líka betri stjórnun á höfði barns. Fótboltastaða er góður valkostur fyrir smærri börn.

Þessi stelling er áhrifaríkust ef hún er notuð með C taki á brjósti. Sumum mæðrum finnst þetta þó ekki þægileg staða.  Sumir nota fótboltastöðu vitlaust með því að nota miðjugrip eða staðsetja munn barnsins of langt frá vörtu móður. Besta gripið í fótboltastöðu er ósamhverft grip.

Hliðarlega við brjóstagjöf
Móðir liggur á hliðinni með kodda undir höfði og við bak. Barn liggur á hliðinni og snýr að móður. Framhandleggur móður styður við bak barns. Til að halda barninu á hliðinni má setja rúllað handklæði við bak þess.  Hliðarlegustaða er hjálpleg mæðrum sem eru að jafna sig eftir keisaraskurð eða spangarklippingu. Hún er góð leið til að róa barnið þannig að það sofni, fyrir næturgjafir eða ef móðir er þreytt og þarf hvíld um leið og hún gefur. Sumum finnst þetta enn ein góð staða fyrir mæður og börn í vandræðum með upphaf brjóstagjafar en öðrum finnst hún of krefjandi.  Hana þarf að kenna mæðrum á sjúkrahúsum því rannsóknir sýna marktækt minni þreytu mæðra sem nota hana á móti þeim sem sitja við brjóstagjöf.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
úr handout e. Andrea Eastman MA,CCE,IBCLC

Deila