Brjóstakorn

Góð byrjun er mikilvæg

12.maí 2015

Brjóstagjöf ætti að vera auðveld og vandræðalaus fyrir flestar konur.  Mikill meirihluti kvenna er fullkomlega fær um að hafa börn sín eingöngu á brjósti í 4-6 mánuði.  Í rauninni framleiða konur meira en nóga mjólk.  Góð byrjun hjálpar til við að tryggja að brjóstagjöf verði ánægjuleg reynsla bæði fyrir móður og barn.  Til þess að brjóstagjöf komist vel af stað geta góðir fyrstu dagar skipt sköpum. 

Galdurinn við brjóstagjöf er að fá barnið til að grípa vel geirvörtuna.  Barn sem grípur vörtu vel fær vel af mjólk.  Barn sem grípur geirvörtuna illa er í meiri erfiðleikum með að fá mjólk.  Það er svipað og að gefa barni pela með allt of litlu gati.  Mjólkin er í pelanum en það er sama hve lengi barnið sýgur pelann, það nær ekki mjólkinni nema að litlu leyti.  Þegar barn grípur illa getur það líka valdið sársauka í vörtunni auk þess að ef það nær ekki mjólk vel úr brjóstinu er það venjulega lengi á brjósti sem eykur enn á verkinn.  Því miður er oft einhver tilbúinn að segja að barnið grípi vel þótt svo sé ekki.  Of margt fólk sem ætti að vita betur veit einfaldlega ekki hvað gott grip er.  Gott grip skiptir sköpum fyrir árangur!! Það er lykillinn að árangursríkri brjóstagjöf.  Áður en kona fer heim af fæðingardeild þarf að vera búið að sýna henni hvernig hún á að leggja rétt á brjóst.  Hún þarf líka að vita hvernig barn sýgur rétt þannig að það fái mjólk. 
Barn sem búið er að setja í góða stellingu við brjóstið á að vera með nefið við vörtu móður sinnar.  Örva þarf barnið til að opna munninn vel.  Síðan þarf móðir að læra rétt handtök við að klemma brjóst saman eins og munnur barnsins liggur, vísa vörtunni upp í góm á barninu og renna henni eftir gómloftinu upp á tunguna.  Það er neðri kjálki barnsins sem kemur fyrst að brjóstinu og það er neðri hluti vörtunnar sem fer meira upp í munninn en sá efri.  Þegar barn sýgur rétt er takturinn þannig að það er opnun-stopp-lokun og aftur opnun-stopp-lokun.  Það er í þessu örlitla stoppi (sem þó sést alveg) við mestu opnun kjálkans sem mjólkin rennur upp í munninn. 

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
úr „Handout“ e.  Jack Newman 2003.

 

Valmynd