Hattur sem lausn við brjóstahöfnun

Ef brjóstagjöf er eðlilegt framhald fæðingarferlisins má leiða að því líkum að barn sem ekki vill sjúga sé barn sem ekki getur sogið. Það þarf að finna út hvað hindrar barnið í að taka sér þá næringu sem það þarf til að lifa af. Ef vandamálið er að barnið ræður ekki við flata eða inndregna vörtu þarf að kanna hvernig á að næra barnið á meðan vartan er löguð og hvort hægt sé að hafa barnið á brjósti þar til vartan kemur út. Mjólkun með pumpu eða mjaltavél dregur venjulega út vörtur. Það getur tekið nokkra daga, vikur eða jafnvel mánuði eftir teygjanleika vörtuvefsins. Ef barnið er aldrei lagt á brjóstið á þeim tíma sem tekur að laga vandamálið verða umskiptin yfir á brjóstið erfiðari án tillits til hvernig barnið var nært í millitíðinni. Þunnan sílikon hatt (mexíkanahatt) er hægt að nota til aðstoðar barni sem hafnar brjósti. Tilgangurinn er að veita örvun í munni barnsins sem ekki næst með vörtunni. Mikilvægt er að velja hatt af kostgæfni. Lengd túttunnar má ekki vera meiri en lengdin á munni barnsins frá mótum mjúka og harða gómsins til vara. Ef svo er verður aðalálagið á mótum vörtu og vörtubaugs sem leiðir til þess að barnið nær lítilli mjólk. Það getur líka leitt til þess að barnið er sífellt að kúgast og verður fráhverft brjóstinu vegna þess. Athugið að það er hægt að fá hatta með túttulengd frá 1.9 sm til 6.4 sm.  Vídd túttnanna er líka breytileg til að koma til móts við misbreiðar vörtur. Meðalvartan er 15-17 mm breið við rótina. Sum börn virðast eiga erfitt með að ráða við vörtur yfir meðalbreidd. Stórir hattar geta valdið sama vandamáli hjá sumum börnum. Betra er að velja lítinn hatt ef vartan passar inn í hann bæði með tilliti til lengdar og breiddar neðst á túttunni.

Venjulegasta leiðin til að leggja hatt við brjóst er að bretta flipana upp fyrst. Leggja túttuna á vörtuna og slétta úr flipunum. Ef skorið er úr hattinum á skarðið að vera þar sem nefið kemur. Tilgangurinn er jú að plastið leggist ekki yfir nefið. Önnur aðferð er að teygja á mótum túttunnar og flipanna innanfrá áður en lagt er við. Þá getur myndast neikvæður þrýstingur áður en barnið byrjar að sjúga og vartan dregist upp í hattinn. Sumum finnst betra að hita hattinn undir heitu vatni áður en lagt er á til að gera hann meðfærilegri. Hattur er notaður sem síðasti möguleiki ef um brjóstahöfnun er að ræða (allt annað reynt fyrst). Og móðir þarf að vera tilbúin að leggja á sig vinnuna við að venja barnið af hattinum yfir á brjóstið beint.  Barnið verður að taka hattinn rétt til að fá til sín næga næringu. Opna vel munninn og sjúga og kyngja taktfast. Það getur verið nauðsynlegt fyrir móður sem notar hatt að fara í mjaltavél eftir velflestar gjafir til að tryggja næga mjólkurmyndun.

Þegar venja á af hatti yfir á brjóstið beint hefur gefist vel að byrja í miðri gjöf þ.e. gefa í nokkrar mínútur með hattinum, taka hann af og bjóða brjóstið. Þá er vartan yfirleitt komin út og mesta spennan undir vörtunni farin. Slík afvenjun gengur misjafnlega eins og gefur að skilja og yfirleitt best því fyrr sem hún er framkvæmd. Smærri börn þurfa oft lengur á hatti að halda og fyrirburar eru oft látnir hafa hatt sem millistig frá pela yfir á brjóst.

Hattar eru ófullkomin tæki og hver sem lætur móður fá hatt þarf að fylgjast vel með gjöfum. Stellingu og grip þarf að meta því barn getur léttilega sogið hatt illa og ekki fengið mikla mjólk út úr gjöfum. Ef barn sýgur hattinn aðeins fremst er alveg eins líklegt að sár myndist og lítil mjólk komi. Móður er ráðlagt að pumpa eftir gjafir ef mjólk er ekki næg eða mjólkurvigta til að fylgjast með árangri.

Svo lengi sem barnið þrífst vel með einföldu tæki eins og hatti er það betri kostur miðað við hættu á að brjóstagjöf hætti alveg. Þótt brjóstagjöf án allra hjálpartækja sé æskilegust eru mæður barna sem loksins taka brjóstið með hatti afar þakklátar fyrir fyrirbærið.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
The Breastfeeding Atlas. Wilson-Clay/Hoover, sec 2002

Deila