Hugleiðingar í tilefni brjóstagjafaviku

Það er talið að nær öll börn geti notið brjóstagjafar eða að minnsta kosti móðurmjólkur. Náttúran hefur auðvitað séð fyrir þessu annars væri hætta á að tegundin dæi út. Í gegnum tíðina hafa þó ýmsar hindranir verið á vegi mæðra sem þeim hefur gengið misvel að yfirvinna. Mætti þar nefna að ungar konur sjá lítið af brjóstagjöf í framkvæmd (mæðra, systra, vinkvenna) og vantar því skilning á hvernig á að bera sig að. Stundum hefur skort á upplýsingar um hvernig eðlileg brjóstagjöf gengur fyrir sig og hvernig bregðast beri við vandamálum sem upp kunna að koma. Þá er aðgangur auðveldur að annarri næringu fyrir ungbörn og fleira mætti tína til.

Íslenskar konur eru að míni mati afar duglegar við að reyna að sigrast á þessum hindrunum. Bæði þær konur sem eru að vinna við að fræða verðandi og nýorðnar mæður, og styðja þær af öllum mætti í brjóstagjöfinni sem og þær konur sem eru að fæða börnin sín og eru staðráðnar í að gera sitt besta til að þau fái notið brjóstagjafar. Íslenskar konur eru mjög duglegar við að byrja brjóstagjöf eins og kom vel fram í skrifum Geirs Gunnlaugssonar barnalæknis á dögunum og er talan hátt í 100%. Þar trónum við að sjálfsögðu á toppnum meðal bestu þjóða. En svo dölum við ansi hratt á næstu vikum og mánuðum því miður. Ég segi því miður vegna þess að ég veit úr starfi mínu sem brjóstagjafaráðgjafi að viljinn til áframhaldandi brjóstagjafar er fyrir hendi. Þá vantar oft á tíðum betri fræðslu, aðstoð og almennan stuðning á seinni stigum brjóstagjafar.

 Allt byrjar þetta á góðum undirbúningi eins og svo margt annað. Það er oft sagt að það að læra að gefa barni brjóst sé 10% fræðsla eða þekking og 90% æfing. Viss kunnátta í grunnatriðum þarf að vera til staðar áður en barnið fæðist eins og t.d. hvað er eðlilegt að börn drekki oft, hve lengi, hvernig er hægt að vita hvort þau fái nóg, hvað er hugsanlega að fara úrskeiðis ef sár koma á geirvörtur o.s.frv.

Eftir fæðingu barnins hefjast æfingarnar: Hvernig er best að halda á barninu, hvernig á að fá það til að grípa vörtuna vel, hvað er rétt sogmynstur o.s.frv.

Það má kannski svolítið líkja þessu við að læra að keyra bíl. Það er viss grunnur sem þarf að vera til staðar. Vita hvernig bílinn vinnur, hvernig allt virkar, eftir hvaða umferðarreglum á að fara o.s.frv. Síðan er þetta bara æfing og aftur æfing. Því oftar og lengur sem er æft því öruggari og auðveldari verður aksturinn. Þeir sem eru lítið undirbúnir og illa æfðir lenda frekar í vandræðum og oftar. Svo má halda áfram og segja að þegar skipt er um bíl (nýtt barn) tekur svolítinn tíma að aðlagast því sem er öðruvísi í honum miðað við gamla bílinn. En það er auðvitað miklu fljótlegra en að læra á bíl í fyrsta sinn.

En svo horfið sé frá bílasamlíkingum þá er sogmynstur barna eitt af þeim atriðum sem ætti að leggja áherslu á að kenna verðandi og nýorðnum mæðrum þegar því verður við komið.

Sogmynstur brjóstabarna er frábærlega hannað af náttúrunnar hendi og gengur best ef það er truflað sem minnst. Mynstrið helgast af því hvernig mjólkurgangakerfi brjóstsins er uppbyggt. Mjólkurgangarnir eru fínlegar rásir sem byrja lengst frá geirvörtu og hafa það hlutverk að leiða mjólkina eftir brjóstinu. Þeir víkka smámsaman út eftir því sem nær dregur vörtunni. Stuttu áður en að vörtunni kemur víkka þeir skyndilega mjög út, reyndar svo mikið að þeir mynda eiginlega poka eða bolla. Þetta kallast safngeymar og er eini staður brjóstsins sem mjólk getur safnast fyrir í einhverju mæli.

Það er utan um þessa geyma sem barnið þarf að grípa þegar það vill sjúga. Eftir nokkur sog er barnið búið að tæma geymana og þá stoppar það og bíður á meðan geymarnir fyllast aftur. Það finnur síðan í munninum hvenær geymarnir eru orðnir fullir og það getur byrjað að sjúga aftur. Fyrstu 5-10 mínútur brjóstagjafar gengur þetta nokkuð vel. Formjólkin sem framleiðist í byrjun er þunn og rennur hratt og vel. Síðan kemur að eftirmjólkinni. Hún er þykkari, næringarríkari og fitumeiri. Hún rennur hægar en formjólkin og er lengur að fylla safngeymana. Því hægist á sogtaktinum.

Flestar mæður taka eftir því þegar sogmynstrið breytist (eftir smá æfingu). Sogin verða færri og stoppin lengri. Það færist meiri ró yfir barnið, augun lokast og yfir andlitið færist sælusvipur. Þetta er eðlileg hegðun brjóstabarns.

Sumar mæður mistúlka mynsturbreytinguna og halda að barnið “nenni” ekki að sjúga lengur almennilega, sé þreytt, syfjað eða hreinlega búið að fá nægju sína. Á þessum stundum sjást mæður gjarnan hvetja börn sín áfram í gjöfinni með því að strjúka kinnar, pota í þau, kitla eða hrista varlega. Þetta er alltaf ónauðsynlegt ef um fullburða hraust barn er að ræða og getur tuflað næringu þess. Barnið er alltaf “látið” sjúga hálffulla safngeyma og gjöf vill því dragast á langinn. Jafnvel geta safngeymar smám saman dregist saman og valdið erfiðleikum áfram.

Því eru það mikilvæg atriði í upphafi brjóstagjafar að móðir læri að láta barn grípa rétt utanum safngeymana, læri að þekkja rétt sogmynstur síns barns og láti barnið í friði til að sjúga nægju sína.

Til að forðast misskilning er rétt að nefna að oft gilda aðrar reglur um börn sem fæðast ófullburða (fyrir 37 vikur) eða eru veik. Þau geta þó náð eðlilegu sogmynsti með auknum þroska.

Reykjavík 3. ágúst, 2004
Katrín Edda Magnúsdóttir, brjóstagjafaráðgjafi

 

Deila