Hvernig veit ég hvort barn mitt sé að fá nóg?

Eitt helsta áhyggjuefni sem nýorðnar mæður hafa er hvort að barn þeirra fái næga mjólk er það sýgur brjóstið. Er það ein helsta orsök þess að farið er að gefa þurrmjólk sem leiðir til að mæður hætta snemma með barn á brjósti. Við lifum í hröðu þjóðfélagi þar sem mikið áreiti og stress getur haft áhrif á þætti er tengjast brjóstagjöf. Flestar mæður geta framleitt næga mjólk fyrir barn sitt. Það er ekki algengt að mæður „hafi ekki  næga mjólk”. Ónóg mjólkurframleiðsla tengist oft læknisfræðilegu vandamálum s.s. brjóstaaðgerð, lélegu sogi barns, rangri stöðu við brjóstið, pillunni, vanstarfsemi skjaldkirtils og fleiri öðrum þáttum. Flest af þessum vandamálum er oftast hægt að leiðrétta.

Það er mjög mikilvægt að móðir læri að þekkja hve mikið barn fær í hverri gjöf er það sýgur brjóstið. Þekki einkenni eins og hve kröftugt sog er, hve lengi barn er að sjúga og hverju það er að útskilja í þvagi og hægðum.

Eftirfarandi þættir geta hjálpað þér að meta hvort barn sé að fá næga mjólk

Eftir fæðingu er broddur í brjóstum sem barn sýgur fyrstu dagana. Barn sýgur oft 8-12 sinnum á sólarhring. Mjólkin ætti að koma á 2-5 degi eftir fæðingu. Barn þitt fæðist með auka vökva í vöðvum sínum og skilst hann út á fyrstu 48 klst. eftir fæðingu. Þetta þyngdartap er venjulega um 200-230 gr. Nýru nýbura við fæðingu eru óþroskuð og því ekki tilbúin til að fá of mikið magn af vökva á þessum tíma. Þess vegna er þetta litla magn af broddi (límkenndi gulleiti vökvinn sem kemur úr brjóstunum áður en mjólkin kemur) fullkomin fæða fyrir meltingu barns og broddurinn er einnig mjög ríkur af mótefnum. Á fyrsta sólarhring eftir fæðingu framleiðir þú um 37 ml af broddi. Barn þitt sýgur 7-14 ml í hverri gjöf.

Venjulega á öðrum til þriðja degi fara brjóst þín að breytast þ.e. verða heitari, fyllri og þyngri. Á þessum tíma byrjar þú að framleiða breytta mjólk  sem er samsett mjólk af bæði  broddi og þroskaðri mjólk. Mjólkin er gulleit að lit. Seinna verður hún hvít, eða á 5-7 degi. Finni móðir ekki breytingar á brjóstum sínum er ráðlagt að hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa, ljósmóður eða heilsugæsluhjúkrunarfræðing.

Þegar mjólkin er komin, ættir þú að finna fyrir að brjóstin eru fyllri fyrir gjafir og mýkri eftir gjafir. Þú gætir séð mjólk dreypa úr eða jafnvel sprautast úr öðru brjóstinu er barnið sýgur hitt brjóstið.
Þetta er svokallað „losunarviðbragð”. Mikilvægt er að fylgjast með fjölda af blautum bleium og hægðarútskilnaði barns. Þetta er trúlega ein besta aðferðin til að vita hve mikið barn þitt fær í gjöf er það sýgur, eins og að vigta barn til að vita hve mikil þyngdaraukning er.

Sog barns

Barn þarf að minnsta kosti að sjúga 8-12 sinnum á sólarhring fyrstu vikurnar. Mörg nýfædd börn sjúga 10-12 sinnum eða oftar (kannski ekki á fyrsta sólarhring en eftir það). Þetta á bæði við um langar gjafir og stuttar gjafir.  (Barn sýgur fyrstu dagana oftar og styttra í einu, þetta kallast keðjugjafir). Einnig þarfnast barn nálægðar móður, til tengslamyndunar (kengúruaðferð). Að gefa brjóst á 1½-3 klst fresti yfir daginn er eðlilegt fyrstu dagana. Ef barn þitt sýgur á 4ra klst fresti á fyrstu tveim vikunum þá þyngist barnið ekki nóg.

Þú gætir þurft að vekja barn þitt í gjafir sé það mjög vært - nýburinn finnur ekki hve oft hann þarf að sjúga sérstaklega á fyrstu tveim vikunum. Ef barn sofnar á fyrra brjósti og er frekar latt að sjúga er mjög gott að hafa það eingöngu á bleiunni nota húð við húð móður til að örva það til að sjúga. Einnig er gott að skipta tímanum á bæði brjóstin, þannig að það fái broddinn og mjólkina. Barn þitt ætti að sjúga taktfast í 10-15 mín á hverju brjósti eða lengur. Það getur tekið pásur af og til en ætti að sjúga kröftuglega á meðan á gjöf stendur. Oft sofnar barn við brjóstið er það hefur sogið vel og ætti að verða ánægt. Sé barn syfjað nær það meiri mjólk með því að sjúga í 5 mín á hvoru brjósti en í 10 mín á öðru brjósti. Þá er gott að skipta um brjóst til að örva sog barns. Þú ættir að heyra barn kyngja er það sýgur brjóstið á 2-3 degi.
Þegar mjólkin er komin þá getur verið næg mjólk í öðru brjóstinu þannig að barn sjúgi einungis annað brjóstið í einu og fái fituríku mjólkina sem er því mikilvæg.

Hægðaútskilnaður

Á fyrstu dögum eftir fæðingu útskilur barn þitt tjörukenndar dökkar hægðir. Þetta eru fósturhægðir sem safnast hafa í þörmum fósturs á meðgöngunni. 

Eftir einn til tvo daga eða þegar mjólkin fer að aukast í brjóstum breytast hægðir, þær verða brúnleitar eða grænleitar og eru lausar í sér og óformaðar.

Þegar barn er orðið  4-5 daga gamalt ættu að vera komnar „mjólkurhægðir” sem eru gulkornóttar hægðir. Barn ætti að losa a.m.k. 2-5 hægðarbleiur á sólarhring en getur haft hægðir í hverja bleiu. Ef barn útskilur minna gæti það verið merki um að það fái ekki nóg að drekka.

Tveir þættir geta haft áhrif á hægðarútskilnað hjá barni þ.e. gula og sýklalyfjameðferð. Sýklalyfjameðferð getur valdið niðurgangi, þá er mikilvægt að vigta barn til að fylgjast með hve mikið barn drekkur í gjöf. Sé barn gult þarf að fylgjast með hve mikið barn drekkur og hver útskilnaður er af hægðum og þvagi. Þarfnist barn ljósameðferðar þá er einnig mikilvægt  að fylgjast með útskilnaði.

Þvagútskilnaður

Á fyrstu dögum barns útskilur það aðeins einni eða tveim bleium af þvagi þar sem það fær einungis brodd sem smá eykst eftir því sem barn sýgur oftar.

Þegar mjólkin kemur í brjóstin á 2-5 degi ætti barn að útskilja 4-6 sinnum á sólarhring. Það er oft erfitt að sjá fyrstu dagana hvort þvag sé í bleiu þar sem bleiur eru rakadrægar, getur verið gott er að setja smá pappírsþurrku inn í bleiuna sem hjálpar til að meta hvort barn hafi bleytt bleiuna. Gott getur verið að nota taubleiu þar til þú ert örugg með útskilnað barns.

Þvag ætti að vera tært/ljóst að lit og mild lykt á 4-5 degi, ekki appelsínugult eða brúnt að lit. Dökkt samansafnað þvag segir til um að barn sé ekki að fá nægan vökva.

Appelsínu litaður blettur í bleiu oft haldið að sé blóð í bleiu á fyrstu dögum en er þvag kristallar sem kemur fyrir hjá sumum nýfæddum börnum og er eðlilegt í byrjun.

Brjóstagjöf                 
                                 
Reynsla margra mæðra af brjóstagjöf er að þær finna fyrir eymslum í geirvörtum á fyrstu dögum brjóstagjafar. Óþægindi þessi eru venjulega verst fyrst er barn byrjar að sjúga og hverfur er líða tekur á gjöfina. Ef vörtur eru sprungnar eða blæðir úr þeim og verkur er til staðar áfram þá þarf að gæta að hvernig barn sýgur brjóst með tilliti til stellingar og grips á vörtum. Þetta veldur ekki bara vanlíðan við gjafir og óþægindum heldur getur leitt til að barn fái ekki næga mjólk. Mikilvægt er að hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa, ljósmóður eða  heilsugæsluhjúkrunarfræðing sem getur metið hvernig þú leggur barn á brjóst. Gjafavandamál er oftast hægt að leiðrétta á auðveldan hátt og bæta líðan móður við brjóstagjöf.

Fylgst er með þyngdaraukningu barns á sjúkrahúsi og í heimaþjónustu þegar barn kemur í endurkomu. Heilsugæslan fylgir þessu síðan eftir. Eðlilegt getur verið að barn tapi 5—7% af fæðingarþyngd á fyrstu dögunum en verði þyngdartap meira en 10%  þá getur þurft að skoða betur hvaða þáttur það er sem getur valdið þyngdartapi hjá barni.

Mikilvægt að fylgjast með!

Ef einhver af eftirfarandi atriðum eru til staðar sem hér eru talin þá er þér ráðlagt að leita strax til barnalæknis, heilsugæsluhjúkrunarfræðings eða brjóstagjafaráðgjafa.


Unnið af Björk Tryggvadóttur ljósmóður IBCLC júní 2003.
Heimildir : Core Curriculum for lactation consultant practice; Marsha Walker, 2002.
Stuðst við greinar eftir: Becky Flora,Bsed,IBCLC og  Anne Smith, BA, IBCLC.

Deila