Kjöltustaða við brjóstagjöf

Móðir situr yfirleitt í þessari stöðu. Barnið liggur þvert yfir kjöltuna með höfuð á framhandlegg eða í olnbogabót móður sinnar. Framhandleggurinn styður við bak barnsins og höndin er um rass og mjaðmir þess. Barnið snýr að móður og á ekki að þurfa að snúa höfðinu til að grípa. Neðri handleggur barnsins getur verið undir brjósti móður eða yfir bringu sína (mörgum finnst hann flækjast svolítið fyrir).
    Hvort höfuð barns hvílir á framhandlegg eða í olnbogabót fer eftir hvar varta móður er staðsett en flestar mæður ættu að hafa höfuðið á framhandlegg einkum fyrstu vikurnar. Eldri börn eru gjarnan í olnbogabót. Aðalatriðið er að barnið þurfi ekki að beygja höfuðið til að grípa. Það getur leitt til of grunns grips.
    Kjöltustaðan er ein algengasta gjafastellingin og sú sem oftast er sýnd á myndum. Hún er vinsæl meðal vanra mæðra. En hún getur verið erfið fyrir nýjar, óvanar mæður að læra. Það getur verið erfitt að stjórna höfði barnsins í þessari stellingu eða að halda barninu nógu hátt uppi. Í þessari stöðu hættir litlu barni til að krullast upp í hnút. Kjöltustaða er kannski heldur ekki besti valkostur ef móðir og barn eiga í vandræðum með grip, mjólkurflæði eða ef móðir er með sárar vörtur.
     Besta tak á brjósti í kjöltustöðu er samlokutak þ.e. brjóstið er klemmt saman milli þumals annars vegar og hinna fingranna á móti. Passa að klemma saman eins og munnur barns liggur. Hugsið ykkur muninn á að reyna að bíta í fótbolta eða stóra þykka samloku sem hægt er að móta flata. Sá hluti vörtubaugs sem snýr að neðri kjálka barns kemur fyrst að munninum. Vörtu er vísað upp í góminn og efri vör er sá hluti sem síðast lokast yfir vörtuna. Takinu er haldið meðan barnið sýgur fyrstu sogin, hvílir og er byrjað aftur að sjúga. Þá er byrjað að losa varlega. Þumlinum ofan brjóstsins er alveg sleppt en áfram er stutt undir brjóstið eins og þörf er á.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi.
úr handout e. Andrea Eastman MA,CCE,IBCLC.

Deila