Leið lyfja í brjóstamjólk

Það er ljóst að brjóstagjöf eingöngu minnkar marktækt líkur nýbura á mörgum sjúkdómum. Það er líka viðurkennt að heilbrigðisyfirvöld mæla með brjóstagjöf sem bestu leið til að næra ungbörn bæði í ónæmisfræðilegu og næringarlegu tilliti. Samkvæmt rannsóknum eru brjóstfædd börn heilbrigðari og þroskast betur. Vitandi þetta eru margar mæður nú andsnúnar því að hætta brjóstagjöf aðeins til að geta tekið inn lyf. Þótt það að hætta brjóstagjöf virðist öruggasta leiðin í augum læknis er hún ekki lífeðlisfræðilega eða sálfræðilega best fyrir barnið eða móðurina. Það er núna þekkt að flest lyf hafa fáar hliðarverkanir í brjóstfæddu barni vegna þess að skammturinn sem fer með mjólkinni er nær alltaf of lítill til að skipta máli eða að það er illa upp tekið af barninu. Vissulega komast öll lyf yfir í mjólk að einhverju leyti. Með fáum undantekningum er þéttni flestra lyfja í móðurmjólk þó sérlega lítil og skammturinn sem barnið fær of lítill til að valda áhrifum. Það er mikilvægt að kanna vel skráðar upplýsingar um lyf og þéttni þeirra í móðurmjólk áður en teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir um brjóstfædda nýbura. Það er líka mikilvægt að skilja að nær án undantekninga setja lyfjaframleiðendur viðvörun við brjóstagjöf á lyf aðallega vegna hræðslu við málarekstur en sjaldan vegna lyfjafræðilegra ástæðna. Þess vegna eru almennar lyfjaskrár ekki besti staðurinn til að leita að nákvæmum upplýsingum um brjóstagjöf og lyf. Magn lyfs sem fer í mjólk byggist á mörgum þáttum s.s. fituleysanleika lyfsins, sameindastærð, blóðþéttni sem næst í blóðrás móður, prótínbindingu í blóðrás móður og helmingunartíma í plasma móður og barns. Á fyrstu 4-10 dögum lífs eru stór bil milli mjólkurblöðrufrumanna. Þessi bil auka aðgengi fyrir flest lyf yfir í mjólk. Fljótlega eftir fyrstu vikuna bólgna mjólkurblöðrufrumurnar út vegna prólaktín áhrifa, loka þessum bilum og takmarka aðgengi að mjólkinni. Það er almennt viðurkennt að lyf komast frekar í mjólk í byrjun heldur en í þroskuðu mjólkina. Þótt það sé ekki alveg sambærilegt er ferð lyfja yfir í mómóðurmjólk mörkuð svipaðri hindrun frumuveggs og til að komast yfir til heila. Í flestum tilfellum er mest ákvarðandi þáttur um ferð lyfja yfir í mjólk þéttni þess í plasma móður. Lyf fara bæði í og, í nær öllum tilfellum, út úr mjólk aftur í samræmi við þéttni í plasma móður. Um leið og þéttni lyfsins í plasma móður byrjar að falla drífa kraftar lyfið út úr mjólkinni og aftur inn í plasma móður.  Fituleysanleiki lyfja er þáttur sem skiptir miklu máli. Lyf sem eru mjög fituleysanleg fara yfir í mjólk í meira magni næstum án undantekninga. Þar vekja lyf sem eru virk í miðtaugakerfi sérstakan áhuga því þau lyf virðast fara á sömu eiginleikum yfir í mjólk. Þannig að ef lyf virkar í miðtaugakerfi má búast við hærri þéttni þess í mjólk. Próteinbinding skiptir líka miklu máli. Lyf hringsóla í plasma móður ýmist bundin albumini eða laus. Það eru þau lausu sem komast yfir í mjólk en þau bundnu verða eftir í plasma. Þess vegna hafa lyf með mikla prótínbindingu t.d. warfarin lága þéttni í mjólk aðeins vegna þess að þau eru lokuð úti. Þegar lyf hefur komist í móðurmjólkina og barnið hefur innbyrt hana þarf lyfið að fara gegnum meltingarveg barnsins áður en það er tekið upp. Sum lyf eru mjög óstöðug í þessu umhverfi vegna ensíma og sýra. Almennt eru magar nýbura ansi súrir og geta gert mörg lyf óvirk t.d. heparín og insúlín. Önnur lyf eru illa tekin upp í blóðrás nýbura. Að auki eru mörg lyf leyst sundur í lifur og komast aldrei í plasma þar sem þau myndu virka. Þessi upptökuvandamál vinna þegar allt kemur til alls að því að minnka heildaráhrif margra lyfja. En það eru vissulega til undantekningar á þessari reglu og það þarf að hafa í huga að áhrif lyfs á meltingarveg geta verið mikil og valdið niðurgangi, hægðatregðu o.fl.  Þótt undantekningar séu má hafa sem þumalputtareglu að minna en 1% af lyfjaskammti til móður endar í mjólkinni.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.  Medications and Mothers´ Milk, Hale (1999).

Deila