Of lítil mjólkurframleiðsla

Ef of lítil örvun á geirvörtur er í upphafi brjóstagjafar vegna veikinda barns, móður eða annarra þátta getur verið erfitt og tímafrekt að ná upp góðri mjólkurframleiðslu. Ástæðan er sú að mjólkurframleiðandi frumur eru búnar að fá þau skilaboð að ekki sé þörf fyrir starfsemi þeirra. Það eru óafturkræf boð. Því er svo mikilvægt að leggja barn ört á brjóst fyrstu dagana og ef þess er ekki kostur að mjalta þá brjóst jafnoft og barn myndi sjúga. Til að ná upp framleiðslu þarf að örva mjög oft og jafnframt gæta þess að barnið sé að fá þá næringu sem það þarfnast. Sumum konum í þessari aðstöðu hjálpar að fá mjólkurörvandi lyf.

Helstu orsakir lítillar mjólkurmyndunar eftir að framleiðsla er komin af stað eru: Of fáar gjafir en þær þurfa að vera 8-12 á sólarhring, Of stuttar gjafir þ.e. barn er tekið af brjósti áður en það hefur lokið sér af(líka löt/syfjuð börn), Of lítið sogið. Ábótargjafir draga úr lyst og sogvilla veldur því að barn nær litlu. Eitt brjóst í gjöf er líka of lítið ef barn er í vaxtarspretti. Þreytt eða kvíðafull móðir getur ósjálfrátt komið í veg fyrir að mjólkurlosunarviðbragðið fari af stað. Sömuleiðis sársauki t.d. í vörtum.
Til að auka aftur mjólkurmyndun þarf að finna orsökina og leiðrétta hana. Til þess getur verið gott að fá aðstoð því ekki liggur alltaf í augum uppi hver er ástæðan.

Gullna reglan er: því oftar sem barnið sýgur og fær, því meiri mjólk kemur.

Og það getur verið gott fyrir sumar að vita að of lítil mjólkurmyndun er ekki ættgeng. Fyrst og fremst trú á eigin hæfileikum til mjólkurframleiðslu ásamt þekking á eðli brjóstagjafar fleytir konum mest alla leiðina.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.

Deila