Ristill ? ?Herpes Zoster?

Ristill eru sársaukafull útbrot sem koma hjá fólki sem áður hefur fengið hlaupabólu.  Hlaupabóluvírusinn virðist liggja í dvala í úttaugum mænu árum saman og jafnvel alla ævina.  Af einhverjum ástæðum verður vírusinn allt í einu virkur og einstaklingurinn fær útbrot, yfirleitt aðeins á annarri hlið líkamans oft í mjög ákveðinni línu.  Þau geta komið hvar sem er en oft koma þau á andlit, brjóstkassa eða kviðarhol.  Sárin líkjast mjög hlaupabólu eða „herpes simples“ sýkingum.  Þau geta verið mjög sársaukafull eða alls ekki.  Stundum eru sárin ekki bundin ákveðinni línu heldur dreifast um allan líkamann líkt og hlaupabóla.

Hvernig smitast Ristill?  Sárin eru smitandi fyrir alla sem ekki eru ónæmir fyrir hlaupabólu en bein snerting er nauðsynleg til smits.

Er brjóstagjöf hættuleg barninu?  Þessi staða er allt önnur en sú sem móðir lendir í við fyrsta hlaupabólusmit.  Sú staðreynd að móðirin hlýtur að hafa áður fengið hlaupabólu þýðir að hún hefur flutt mótefni gegn henni til barnsins um fylgju.  Þessi mótefni eru til staðar hjá barninu til 6 mánaða aldurs eða lengur eftir fæðingu.  Að auki hefur mjólk móðurinnar að geyma mótefni gegn hlaupabóluvírus ásamt öðrum mótefnum.  Þannig að þegar móðir með barn á brjósti fær ristil er engin ástæða til að aðskilja hana frá barni sínu og alls enginn ástæða til að hætta brjóstagjöf.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Heimild: Newman, 2000.  The Ultimate Breastfeeding Book of Answers.

Deila