Róleg afvenjun

Talið er heppilegt að venja barn af brjósti smám saman ef þess er nokkur kostur. Þá gildir einu hve barnið er gamalt. Það verður viss aðlögun í brjóstvefnum hægt og rólega og flestar konur losna við óþægindi í brjóstum. Einnig halda brjóstin betur lögun sinni og fituforða. Það er líka betra fyrir barnið að vera ekki svipt mörgum gjöfum samtímis. Barn getur túlkað það sem höfnun og brugðist illa við. Líkamlega er líka gott fyrir meltingarfæri barnsins að aðlagast nýrri fæðu hægt og rólega. 

Ekki er algilt hve langan tíma róleg afvenjun tekur. Það fer eftir aldri barns, aðstæðum fjölskyldu ofl.

Tekin er út staða brjóstagjafarinnar. Til að byrja með getur verið gott að skrá niður hve margar gjafir eru á sólarhring, hvenær þær eru og hverjar eru mikilvægari (vinsælli) en aðrar. Nú er vitað að brjóstabörn geta tekið mismargar gjafir á sólarhring en þá verður að miða við meðaltal.

                      Með bestu ósk um að vel gangi með afvenjun.
                                    Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi.

Deila