Snerting

Mannveran er vera snertingar. Sérstaklega á fyrstu árum ævinnar skynjum við meira og minna allan heiminn með snertingu. Mesta snertiskyn nýfædds barns er í munninum en allt yfirborð húðar þess þarfnast líka snertingar. Í hinum firrta heimi nútímans eru konur vitandi eða óafvitandi farnar að forðast snertingu við börn sín, sérstaklega nakin. Við fyrsta mögulega tækifæri eru börn klædd í föt. Er það til að forðast kulda eða forðast snertingu? Það er vitað mál að nakið barn við nakta húð móður fylgir hita hennar, er rólegra og ánægðara. Næst er barnið sett í plastvöggu. Það er gert til þæginda en mæður leitast oft við að hafa barnið sem mest í vöggunni og taka það upp eins sjaldan og þær komast af með. Þær reyna jafnvel löngum stundum að rugga barninu í svefn í vöggunni í stað þess að taka það upp í faðminn þar sem það væri mun fljótara að sofna.

Brjóstagjöf ber með sér að um mikla og nána snertingu er að ræða. Margar mæður reyna að hafa hverja gjöf sem stysta og líta á það sem sigur ef þeim tekst að takmarka gjafir við nokkrar mínútur. Tilhneiging er í þá átt að líta á langar gjafir sem óþarfar, óþekkt í barni eða að barnið sé að nota brjóstið „eins og snuð”. Þegar barnið er í raun í örvæntingu að reyna að vera í nánd móður sinnar og fá þá næringu sem líkami þess þarfnast. Ákveðinn fjöldi kvenna kýs að hafa barn sitt ekki á brjósti annað hvort vegna þess að þær geta ekki hugsað sér svo nána snertingu eða að þær líta svo á að barnið verði ekki eins háð þeim ef að þær sleppa því. Hægt er að leiða að því líkum hvers þau börn fara á mis við.

Mörg svokölluð hjálpartæki brjóstagjafar verða til þess að snerting minnkar. Má þar nefna t.d. mexicanahatta, snuð, pela, stóla, púða, pullur mjaltapumpur og tæki til að hlusta eftir börnum.

Barnabílstóll er skylduöryggistæki í bílum. Hann ætti ekki að nota til að geyma barn í löngum stundum eða rugga og svæfa barn í. Gjafapúðar eiga fyrst og fremst að vera stuðningur undir handleggi móður. Barn á ekki að liggja á honum beint án snertingar móður. Svona mætti áfram telja. 

Það er börnum til góðs að hvetja mæður þeirra til að snerta þau meira. Segja þeim að þetta sé ein af grunnþörfum barns sem þarf að uppfylla. Því meira þeim mun betra. Barn sem er svipt snertingu er líklegra til að verða vansælt og óvært. Það getur líka hjálpað að reyna að draga úr notkun þeirra hjálpartækja sem minnka snertingu við börn og kenna rétta notkun þeirra sem notuð eru. Það er líka allt í lagi að líta gagnrýnum augum á hjálpartæki brjóstagjafar og barnavörur. Því þótt tilgangurinn sé í flestum tilfellum góður leynast möguleikar á misnotkun víða.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.

Til frekari fróðleiks:
www.noodlesoup.com

 

Deila