Snögg afvenjun / uppþurrkun

Ef mjólkurframleiðsla er komin vel á skrið og nauðsynlegt reynist að hætta snögglega einhverra hluta vegna verða ákveðin líkamleg viðbrögð. Brjóstin verða þanin, aum og jafnvel hnökrótt. Það eykst hætta á brjóstabólgu. Snögg lækkun á hormóninu Prólaktín getur líka valdið þunglyndistilfinningu.

Hér eru nokkur ráð til að minnka óþægindi og forðast vandamál.

Alltaf bíða eins lengi með að mjólka og hægt er og mjólka eins lítið og hægt er að komast af með.  Ef eingöngu er um mjaltavéla¬mjólkun að ræða er rétt að smá draga úr mjólkunum. Ef t.d. hefur verið mjólkað á 3 klst. fresti er breytt yfir í á 4 klst. fresti, svo 6 klst. fresti svo 8 klst. svo 12 klst. o.s.frv. Og ef verið var að mjólka 200 ml. í mál er breytt yfir í 150 ml. í mál, svo 100 ml. svo 50 ml. o.s.frv. Hversu hratt er hægt að trappa niður fer eftir aðlögun brjóstanna og flestar konur finna það vel sjálfar.

Tíminn sem tekur að hætta fer eftir hversu mikil framleiðslan var. Ef mjólk er lítil er jafnvel hægt að hætta beint án mikilla viðbragða. Athugið að margra mánaða gömul börn sem grípa brjóstið nokkrum sinnum á nóttu án þess að virðast „drekka“ mikið geta verið að taka til sín mörg hundruð ml.  Ef um fulla framleiðslu er að ræða tekur um 2-3 vikur að hætta eða minna ef vel gengur.
Það er eðlilegt að konur geti kreist fram dropa eða finna fyrir leka í nokkrar vikur eða mánuði eftir að hætt er.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Upplýsingur úr grein eftir Anne Smith IBCLC og LLLleader; „Lactation suppression“.

Deila