Brjóstakorn

Sveppasýking á geirvörtum

12.maí 2015

Sveppasýking á geirvörtum ógnar brjóstagjöf vegna hins mikla sársauka sem hún veldur. Fyrstu einkenni eru oft kláði og pirringur í húð og stundum sjást agnarlitlar bólur. Það getur verið erfitt að greina sveppasýkingu. Vörturnar geta litið eðlilega út en oft eru þær rauðar og geirvörtubaugurinn rauðbleikur og glansandi. Þær geta verið flagnandi og haft smásprungur á mótum vörtu og vörtubaugs. Hvítir flekkir geta sést á geirvörtubaug, hvít skán í munni barns eða roði og upphleypt húð á bleyjusvæði. Móðir finnur fyrir brunatilfinningu þegar barnið drekkur og á milli gjafa, sem leiðir inn í brjóstið og getur staðið í allt að eina klst eftir gjöf.

Greining er oft byggð á lýsingum mæðra.  Þær nota oft orðið bruni til að lýsa sársaukanum og eru ósparar á myndlíkingar.  „Eins og þúsundir títiprjóna“, „Eins og verið sé að skera vörtuna af“. Hann leiðir inn í brjóstið stundum aftur í bak eða niður í handlegg. Margar mæður lýsa ofurviðkvæmni eins og að þola ekki fötin eða vatnið úr sturtunni á vörturnar. Ekki er hægt að byggja greiningu á ræktunum því sveppir eru partur af flórunni og erfitt að greina hvað er of mikið.  

Meðferð hefst samtímis á vörtum móður og munni barns. Nota má Gentian violet, sem fæst án lyfseðils í apóteki. Borið er á slímhúðir í munni barns með bómullarpinna einu sinni á dag í 4-7 daga og á geirvörtur og vörtubaug móður. Ef einkenni eru horfin eftir 4 daga má hætta meðferð. Annar möguleiki er Mycostatin mixtúra sem borin er á geirvörtur, vörtubaug og í slímhúðir í munni barns eftir gjafir, að lágmárki 4 sinnum á dag, helst eftir hverja gjöf í 14 daga. Þriðji möguleikinn er Daktar krem (Miconazole nitrate) sem borið er á geirvörtur móður eða Daktacort sem er með sterum. Þvo þarf geirvörtur fyrir og eftir brjóstagjöf. Ef sjáanleg sveppasýking er annars staðar t.d. á rassi barns er það meðhöndlað með Daktacort um leið. 

Ef grunur er um sýkingu inni í mjólkurgöngum má taka Diflucan (Fluconazole) töflur. Þá eru fjórar 150 mg töflur teknar, tvær saman fyrsta daginn, ein annan daginn og ein þriðja daginn. 

Hreinlæti er mikilvægt bæði handþvottur og þvottur og þurrkun á vörtum.  Allt sem snertir viðkomandi svæði er soðið reglulega og brjóstainnlegg þarf að skipta um við hverja gjöf. Ef grunur er um blandaða sýkingu sveppa og baktería þarf að nota meðferð sem hæfir því.

Júlí 2019

Valmynd