Sveppasýking á geirvörtum

Sveppasýking á geirvörtum ógnar brjóstagjöf vegna hins mikla sársauka sem hún veldur.  Þættir sem hvetja til sveppasýkingar eru:

Það getur verið erfitt að greina sveppasýkingu.  Vörturnar geta litið algjörlega eðlilega út en oft eru þær rauðar og vörtubaugurinn bleikur og glansandi.  Þær geta verið flagnandi og haft smásprungur á mótum vörtu og vörtubaugs.  Einstaka sinnum sést hvítur vöxtur á vörtutoppi.  Í vörtusárum geta bæði sveppir og bakteríur náð að þrífast.  Sveppir á slímhúðum eru hvítir hringlaga blettir og á rassi barns og í nára mynda sveppir rauða flekki sem renna saman.
 Greining er oft byggð á lýsingum mæðra.  Þær nota oft orðið bruni til að lýsa sársaukanum og eru ósparar á myndlíkingar.  „Eins og þúsundir títuprjóna“, „Eins og verið sé að skera vörtuna af“. Sársaukinn er í gjöf og/eða eftir gjöf.  Hann leiðir inn í brjóstið stundum aftur í bak eða niður í handlegg.  Margar mæður lýsa ofurviðkvæmni eins og að þola ekki fötin eða vatnið úr sturtunni á vörturnar. Ekki er hægt að byggja greiningu á ræktunum því sveppir eru partur af flórunni og erfitt að greina hvað er of mikið.  

Meðferð hefst samtímis á vörtum móður og munni barns.  Notuð er mixtúra Mycostatin sem borin er á vörtur fyrir og eftir hverja brjóstagjöf og dreift á slímhúðir í munni barns eftir hverja gjöf.  Ef sjáanleg sveppasýking er annars staðar t.d. á rassi barns er það meðhöndlað með Daktacort um leið. 

Hreinlæti er mikilvægt bæði handþvottur og þvottur og þurrkun á vörtum.  Allt sem snertir viðkomandi svæði er soðið reglulega og brjóstainnlegg þarf að skipta um við hverja gjöf.  Meðferðin stendur í 14 daga en einkenni halda áfram eða jafnvel versna fyrstu 2-4 daga meðferðarinnar áður en þau byrja að lagast.  Ef grunur er um blandaða sýkingu sveppa og baktería þarf að nota meðferð sem hæfir því.

Deila