Syfjaða barnið

Barn sem er syfjað í byrjun gjafar gæti þurft aðstoð við að komast í betur vakandi ástand. Kannski liði barninu betur aðeins kaldara þar sem smá lækkun umhverfishita hvetur vöku. Snerting húðar við húð hefur líka hvetjandi áhrif til sogs svo það að klæða barnið úr að einhverju leyti getur verið örvandi fyrir það. Sum börn vakna við að vera sett í upprétta stöðu eða lögð niður og velt mjúklega frá hlið til hliðar. Foreldrar geta talað til barnsins í hvetjandi tón eða spilað fjöruga tónlist. Vel upplýst herbergi er meira örvandi en dimmt. Einnig geta léttar strokur verið gagnlegar en þó er einstaka barn sem þolir illa létta snertingu og líður illa af þeim.

Barn sem sofnar áður en gjöf er lokið á í annars konar vandræðum. Þol þess getur verið vandamál og þurft gæti að breyta gjafamynstri þess í margar stuttar gjafir til að bæta upp fyrir vanhæfni til að endast í gjöf af venjulegri lengd. Svokölluð skiptigjöf kemur til mála tímabundið en þá er skipt um brjóst í hvert sinn sem barn lognast út af. Á milli brjósta er barn hvatt áfram með bleyjuskiptum og örvandi hreyfingum. Gallinn við skiptigjafir og stuttar gjafir er sá að þá nær barnið lítilli eftirmjólk til sín. Því eru þær aðeins notaðar í stuttan tíma til að koma barninu yfir ákveðinn hjalla og síðan farið í „venjulega” gjafalengd. Annar kostur er að gefa barninu ábót af mjólkaðri eftirmjólk til að auka hitaeiningar.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.  The Breastfeeding Atlas 2002.

 

Deila