Sýking í Montgomery kirtli

„Montgomery“ kirtlar geta verið frá 4 – 28 á hverjum vörtubaug.  Þeir stækka á meðgöngu og hjaðna aftur í sama horf eftir að brjóstagjöf er hætt.  Þeirra aðalhlutverk er að veita fituefni út á vörtubauginn til að halda honum mjúkum og vel smurðum.  „Montgomery“ kirtlar hafa sitt eigið gangakerfi sem er svipað og smækkuð útgáfa af brjóstakirtlakerfi.  Stundum framleiða þeir örlítið magn mjólkur.  Gangarnir sem framleiða fituefni renna stundum saman við ganga sem framleiða mjólk.  Það er ekki óvanalegt að sjá vökvadropa á þessum bólulíku fyrirbærum.

Endrum og sinnum stíflast þessir gangar og sýkjast.  Þetta er oftast ástand sem líkaminn lagar sjálfur er varleg meðhöndlun með hita og nuddi getur hjálpað svo og sýkladrepandi krem.

Konur geta ruglað sýkingu í „Montgomery“ kirtli saman við mjólkurstíflu sem sýnir hversu varasamt er að gefa ráð í gegnum síma.  Sýklalyfjataka getur lagað ástandið en ef kirtillinn er opinn þarf staðbundinn áburður líka að koma til.  Brjóstagjöf getur óhindrað haldið áfram en stöku sinnum lenda konur sem aðeins nota mjaltavél í vandræðum.  Þá lendir brún brjóstaskjaldarins á sýkta kirtlinum og veldur sársauka í hverju sogi.  Konurnar geta þá notað handmjólkun á meðan ástandið er að jafna sig en erlendis er hægt að panta brjóstaskildi með aflögun fyrir svona fyrirbæri.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Heimild: Wilson-Clay & Hoover.  (2002).  The Breastfeeding Atlas.

 

Deila