Þyrnirós, framhald

Letinginn virðist vera stöðugt á brjósti en er aldrei ánægður.  Hann grætur þegar móðirin endar gjöf.  Letilegur sogstíll hans virðist ekki örva brjóstið nóg til að koma af stað losunarviðbragðinu svo hann fær ekki fituríku mjólkina sem myndi fylla hann.  Hann getur pissað vel en hefur sjaldan hægðir.  Hann léttist.  Mjólkurframleiðsla móðurinnar dvínar vegna lélegs sogs.  Letinginn notar aðeins varirnar til að sjúga.  Það sjást ekki kjálkahreyfingar eða eyrnatif.  Hann sýgur stöðugt og mótmælir hástöfum ef tekinn af brjósti.  

Skiptigjöf hjálpar letingjanum að sjúga betur.  Það getur þurft að skipta um brjóst á 30-60 mínútna fresti í byrjun.  Fylgjast þarf sérstaklega vel með hvernig barnið grípur brjóstið og leiðrétta ef það er vitlaust. Athuga þarf vel að mæður skilji að skiptigjöf er aðeins notuð tímabundið til að leysa vandamál.  Það er ekki gjafatækni sem mælt er með til frambúðar.  Þegar vandamálið er leyst er aftur farið í sem lengst gjöf á fyrra brjósti.  Sum börn tileinka sér svo laust sog að þau eru sífellt að detta af brjósti.  Önnur beita tungunni vitlaust eða smella og enn önnur finna upp ný „trix“.   Allt eru þetta vandamál sem má laga.  Aðalatriðið er að gripið sé inn í sem fyrst og ekki leitað ódýrra lausna.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Heimildi: Breastfeeding Pure and Simple, 2000.

Deila