Umhirða á sárum vörtum

Þegar sár koma hvar sem er á húð er byrjað á því að hreinsa sárið til að fjarlægja óhreinindi sem gætu valdið sýkingu. Oftast eru sár hreinsuð með kranavatni og mildri sápu. Sár á geirvörtum eru hér engin undantekning. Einnig má nota saltvatn. Það er í rauninni óþarfi að hreinsa heilar vörtur og aðeins mælt með sturtu sem nægilegum þrifum en vörtur með sárum þarf að þvo með volgu sápuvatni einu sinni á dag. Mælt er með því að nota milda sápu, helst ilmefnalausa en ekki er mælt með því að nota bakteríudrepandi sápu. Eftir gjafir er mælt með hreinsun sársins með kranavatni eða saltvatni til að koma í veg fyrir að sýklar úr munni barnsins nái að hreiðra um sig í opnu sárinu. Sýklar úr munni barnsins eru skaðlausir á heilli húð eða slímhúð en geta valdið sýkingu í opnu sári. Mæður geta sprautað á sárið úr brúsa og ættu að gæta vel að góðum handþvotti fyrir og eftir.  Sár á vörtum sem ekki gróa eftir að stellingar og grip hafa verið leiðrétt geta bent til að sýking sé komin í sárið. Meirihluti sárra varta og brjóstasýkinga verða á fyrstu 2 vikunum þegar sýkingarvaldar úr sjúkrahúsumhverfinu geta verið til staðar í sárum. Menguð sár geta verið lengi að gróa og leitt til útbreiddari sýkingar. Staphylococcus Aureus er algengur sýkingarvaldur í sárum. Það er viturlegt að hafa í huga að rofin húð býður heim hættunni á sýkingu. Fyrsta skref er að koma í veg fyrir sýkingu. Hreinlæti er mikilvægt hvenær sem húð er rofin. Þegar grunur er um óhreint sár ætti að meðhöndla með bakteríudrepandi kremi t.d. Bactroban. Það virkar gegn Staphylococcum og flestum Streptococcum og hefur einhverja virkni gegn sveppum að auki. Það er ólíklegt til að hafa hliðarverkun á barnið.  Ef vörtur eru orðnar sjáanlega sýktar og konan kvartar um sáran verk og finnst útlit varta ljótt kemur til greina að setja konur á sýklalyf til inntöku.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
The Breastfeeding Atlas.  Wilson-Clay/Hoover (2002)

Deila