?Með barni? vítamín og Hafkalk

19.04.2011

Langar að fá upplýsingar um hvort að mér sé óhætt að taka „Með barni“ og Hafkalk saman á meðgöngu. Veit að ég má taka Hafkalk á meðgöngu, en ég er aðalega spá í hvort að ég sé að fá of mikið af einhverjum efnum. Ég tek Hafkalk vegna þess að ég er með mjólkuróþol. Fyrirfram þakkir og takk fyrir frábæran vef.


Sæl!

Fólínsýra (400 µg á dag) er eina vítamínið sem mælt er með að allar barnshafandi konur taki fyrstu 3 mánuði meðgöngunnar og helst í 1 mánuð fyrir getnað líka. Flestar þurfa að taka inn D-vítamín þar sem við fáum ekki nóg úr fæðunni og heldur ekki frá sólinni. D-vítamín eykur líka upptöku á kalki þannig að það er sérstaklega mikilvægt fyrir þig. Kona sem borðar fjölbreytta fæðu ætti ekki að þurfa önnur vítamín nema ef til vill járn ef mælingar á blóðrauða reynast lágar. Ef hins vegar einhverja fæðuflokka vantar í daglega neyslu þarf að skoða það sérstaklega og bæta það þá upp með vítamíntöflum eins og þú ert að gera með því að taka inn Hafkalk.

Þrjár töflur af vítamíninu „Með barni“ innihalda um 25% af ráðlögðum dagsskammti af kalki svo þér er óhætt að bæta við Hafkalki til að ná upp ráðlögðum dagsskammti. Ef þú tekur inn 3 töflur af vítamínínu „Með barni“ þá ertu hins vegar að fá of mikið af nokkrum vítamínum og það er ekkert sem mælir með því að taka inn of mikið af vítamínum á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. apríl 2011.