Spurt og svarað

12. október 2007

Lax, lax, lax og aftur lax!

Hæ og takk fyrir góðan vef!

Er í lagi fyrir ólétta konu að borða lax? Er þá að tala um bara venjulegan lax? Hvað gerir kvikasilfur fóstri?

Kær kveðja.

Sæl og blessuð!

Ástæða þess að barnshafandi konur eiga ekki að borða graflax er sú að hann er hrár. Lax sem er soðinn, steiktur, grillaður eða bara eldaður á einhvern hátt er í góðu lagi.

Fóstri í móðurkviði og nýbura er meiri hætta búin af völdum kvikasilfurs og af þeim sökum hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nýlega lækkað inntökumörk fyrir kvikasilfur.

Eftirfarandi upplýsingar er að finna á vef Umhverfisstofnunar:

Er varðar sjávarfang á íslenskum markaði þá ættu barnshafandi konur og konur með börn á brjósti að takmarkað við sig neyslu með eftirfarandi hætti:

Tvisvar í viku eða sjaldnar

  • túnfiskur í dós
  • hrefnukjöt
  • svartfuglsegg

Einu sinni í viku eða sjaldnar

  • túnfisksteikur
  • búrfiskur

Aldrei

  • hákarl
  • fýll
  • fýlsegg
  • sverðfiskur

Neysla á þorskalifur er ekki talin æskileg fyrir áðurnefndan hóp kvenna vegna þrávirkra lífrænna aðskotaefna. Þetta gildir þó alls ekki fyrir lýsi, þar sem aðskotaefnin eru hreinsuð úr vörunni við framleiðslu.

Hráan fisk af hvaða tegund sem er ætti að forðast á meðgöngu vegna baktería sem í honum geta verið. Dæmi um hráan fisk eru graflax, reyktur lax og sushi.

Þær tegundir fiska sem eru á borðum landsmanna dagsdaglega svo sem ýsa, þorskur, lax og smálúða eru hins vegar engum takmörkunum háðar, séu þær vel eldaðar og þeirra ætti að njóta oft í viku.

Fiskikveðjur,
Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
12. október 2007

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.