Spurt og svarað

04. júní 2009

Leghálsbilun

Komið þið sælar kæru konur og til lukku með þennan frábæra vef.

Ég fæddi andvana stelpu núna í janúar síðastliðinn og núna stend ég framim fyrir því að vera ófrísk aftur.  Ég ætti að vera komin 5 vikur á leið miðað við fyrsta dag síðustu blæðinga og ég er skelfingu lostin.  Ég er svo dofin og frosin að ég ligg bara upp í rúmi og græt.  Ég er svo hrædd við að það sama endurtaki sig (ég var metin með leghálsbilun) og ég vil alls ekki vera á heilsugæslustöðinni í skoðunum eins og ég var síðast.  Mér fannst engan veginn hlustað á mig þar og ég kæri mig bara ekki um að vera vísað í burtu aftur ef mér finnst ég hafa of mikla verki.  Ég veit ekkert hvert ég á að leita, hvar ég á að biðja um hjálp eða hvað gerist næst.  Ég var hjá Reyni Tómasi þegar ég var lögð inn á meðgöngudeildina og hef reynt að ná í hann en næ ekki sambandi. Hvert sný ég mér?  Verð ég að vera í mæðraskoðun á heilsugæslustöðinni minni?  Þarf að setja upp saum hjá mér aftur?  Ef það verður settur upp saumur hjá mér hverjar eru líkurnar á að belgurinn springi í aðgerðinni og að eitthvað fari úrskeiðis?  Kemur leghálsbilun í veg fyrir að ég eigi eðlilega meðgöngu?  Má ég vinna á meðgöngunni?  Er bannað að stunda kynlíf hvort sem er með maka eða sjálfsfróun?

Með von um góðar leiðbeiningar Englamamma

 


 

Komdu sæl. 

Ég vil byrja á að segja að ég samhryggist þér vegna dóttur þinnar en óska þér til hamingju með að vera komin af stað aftur.

Það er mjög eðlilegt að líða eins og þér líður í þessum aðstæðum.  Sennilega þarft þú að vera í meðgönguvernd á Landspítalanum í þetta skipti þar sem um aukna áhættu er að ræða fyrst þú ert með leghálsbilun.  Þú þarft hinsvegar að fá tilvísun frá ljósmóður eða lækni til að komast þangað í skoðun.  Þú getur talað við ljósmóður eða heimilislækni (fengið viðtal eða símatíma) í heilsugæslunni eða talað eða fæðingarlækni, sem mun geta svarað spurningunum þínum líka.  Á Landspítalanum eru ljósmæður og fæðingarlæknar sem sinna mæðravernd þannig að þar kemstu í færi við kvensjúkdómalækni ef ekki fyrr.  Ég ráðlegg þér að reyna að komast sem fyrst í skoðun þangað eða tala við kvensjúkdómalækni á stofu.

Hinum spurningunum þínum er erfitt að svara svona í gegnum tölvu en þú færð svör þegar þú verður skoðuð og ákveðið hvað þarf að gera.

Gangi þér vel.

 Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
4. júní 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.