Leghálskrabbameinsskoðun á meðgöngu

21.12.2009

Góðan daginn!

Ég var að komast að því að ég er komin u.þ.b. 6vikur á leið, og ég átti að fara í leghálskrabbameinsskoðun fyrir mánuði síðan. Mig langaði að spyrja hvort það sé í lagi að fara í skoðun. Ég talaði við hjúkrunarfræðing á krabbameinsstöðinni og hún sagði að það væri í lagi upp að 16.viku og því fyrr því betra. Hún kannaðist ekki við það að leghálskrabbameinsskoðun valdi fósturláti svona snemma á meðgöngu. Vildi bara „double-tjekka“ þetta við ykkur?

Með von um svar sem fyrst.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð!

Jú, það er alveg óhætt að fara í þessa skoðun á meðgöngu. Sýnið sem er tekið er skafið varlega frá frumum í leghálsinum, langt frá þeim stað sem fóstrið er. Það getur verið að það blæði lítillega eftir skoðunina.  

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. desember 2009.