Ammoníak og meðganga

23.06.2010

Getur ammoníak lykt eða leki haft áhrif á meðgöngu. Ég er komin 25 vikur og
starfa í fiskvinnslu þar sem upp hefur komið ammoníakleki. Er það hættulegt?


Við leituðum til Eitrunarmiðstöðvar Landspítala og þar varð fyrir svörum Ólafur R. Ingimarsson, yfirlæknir Bráða og göngudeildar. Við kunnum honum bestu þakkir fyrir skjót svör.

„Ammoníak gefur afar sterka lykt þó í litlum skömmtum sé og er þá hættulítið. Í stærri skömmtum geta komið eitrunareinkenni og þá aðallega frá öndunarvegum. Oftast strax en einnig er lýst síðkomnum áhrifum t.d bronchiolitis. Ekki er talað um nein sértæk áhrif á fóstur og virðist vera hægt að segja að ef móðir er ekki með einkenni þá hefur þetta ekki áhrif á fóstur.“

Vona að þessar upplýsingar komi að gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. júní 2010.