Legvatnsástunga

29.04.2008

Hæ, hæ!

Ég er á leið í legvatnsástungu í næstu viku því hnakkaþykktarmælingin kom ekki nógu vel út. Ég er búin að finna mér töluvert mikið af upplýsingum um framkvæmdina og hvað er rannsakað en hvergi kemur fram hvort maður finni mikið fyrir stungunni. Þar sem ég veit að ekki er um deyfingu að ræða.

Vitið þið hvort þetta sé mjög vont og hvað þetta tekur langan tíma?

Takk annars fyrir frábæran vef!

Kveðja, Hrabba.

 


 

Sæl!

Tíminn sem gefinn er fyrir legvatnsástungu er 15 mínútur. Það er sónarskoðað fyrst og fundinn heppilegur staður fyrir stunguna og síðan er húðin sótthreinsuð með spritti. Þetta er  ein stunga  í gegnum kviðvegginn og inn í leg og flestar konur tala um að það sé verra að fara í blóðprufu. Það er mjög einstaklingsbundið hvernig konur upplifa sársauka en í kviðveggnum er lítið um taugar og þar af leiðandi ekki eins sárt og að láta stinga í æðar.

Kær kveðja og gangi þér vel,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreiningardeild LSH,
29. apríl 2008.