Legvatnsleki við 39 vikur

19.04.2011

Góðan dag!

Mig langaði til að forvitnast um hvort það sé eitthvað til að hafa áhyggjur af þó ég sé e.t.v. með örlítinn legvatnsleka. Ég er gengin 39 vikur + 1 dag og við síðustu mæðraskoðun (fyrir viku síðan) var barnið í höfuðstöðu en ekki búið að skorða sig. Ég held að slímtappinn hafi jafnvel farið um helgina, alla vega kom meira slím en vanalega, glært að lit, ekkert blóð þó. Ég finn þó ekki fyrir neinum samdráttarverkjum, kúlan harðnar þó inn á milli en ekkert meira en hefur verið síðustu vikurnar. Ég finn fyrir nokkuð reglulegum fósturhreyfingum. Ráðleggið þið mér að fara og láta skoða mig? Eða á ég bara að bíða róleg þar til ég fer í næstu mæðraskoðun en það er eftir eina viku. Með fyrirfram þökk og þökk fyrir frábæran vef :-)

Kveðja, Bumbulína.


Sæl Bumbulína!

Ef þú heldur að legvatnið sem byrjað að renna þá er einhvers staðar lítið gat á belgjunum sem hleypir legvatninu út. Við tölum oft um að legvatnið „sé farið“ en það er auðvitað ekkert farið, heldur bara byrjað að leka út. Þegar grunur er um legvatnsleka er rétt að fara í skoðun og fá úr því skorið því ef um legvatnsleka er að ræða þá er æskilegt að fæðingin fari af stað innan sólarhrings vegna sýkingarhættu. Hafðu samband við ljósmóður á fæðingardeildinni sem þú ætlar að fæða á og segðu þeim þína sögu. Ljósmóðirin mun ráðleggja þér í framhaldi af því.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. apríl 2011.