Lengd fósturs

26.11.2007

Sælar, ég er búin að vera að velta mikið fyrir mér niðurstöðu úr snemmsónar í dag. Samkvæmt honum er fóstrið 37mm og ég komin 11v4d samkvæmt því miðað við eitthvað rit sem kvensjúkdómalæknirinn sýndi mér.

Það sem mér finnst svo skrítið er að samkvæmt öllum upplýsingum á netinu sem ég finn er fóstur á 11-12 vikur í kringum 60mm og fóstur sem er 10-11 vikna 45mm. Getið þið eitthvað útskýrt þetta fyrir mér eða sagt mér hvers vegna þetta misræmi kemur fram? Eru þessir 37mm út frá snemmsónarnum eitthvað margfaldaðir eða hvað eða er ég komin styttra en 10 vikur? sem getur varla passað þar sem hann sýndi mér blað sem stóð á að 37mm fóstur samsvaraði 11-12 vikna meðgöngulengd......


Komdu sæl.

Það er von að þér finnist þetta svolítið ruglingslegt en í sónar er mæld lengdin frá hvirfli (efst á höfði barnsins) að rófubeini en fætur ekki teknir með.  Á netinu er venjan að tala um allt barnið, frá hvirfli til ilja og þá er það auðvitað lengra.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
26.11.2007.