Lengdarmæling í 12 vikna sónar

07.02.2007

Góðan dag og takk fyrir góðan vef!

Mig langaði svo að spyrja aðeins um 12 vikna sónarinn og lengdarmælinguna sem gerð er þá. Ég fór og fóstrið var mælt 8,9 cm og þær sögðu að m.v. það væri ég komin 11+4 daga, svo fór ég reyndar nokkrum dögum seinna og þá var fóstrið mælt 10,4 cm og þá átti ég að vera komin 12+1 dag skv. þeim. Vinkona mín fór svo stuttu seinna og fóstrið hennar var mælt 8,8 en henni sagt að þá væri hún komin 13+1 dag. Mér fannst þetta frekar ruglingslegt.

Er m.v. eitthvað annað en lengdina þegar verið er að mæla meðgöngulengd á þessum tíma?

Bestu kveðjur, Bumban.Sæl!

Lengdarmælingar á fóstri við 11-14 vikur, er gerðar með því að mæla frá höfði og niður á rass (CRL). Við 11 vikur og 4 daga mælist þessi lengd 47 mm og við 12 vikur of 1 dag 54 mm og að lokum við 13 vikur og 1 dag 68 mm. Ég hef grun að verið sé lesa af myndum sem konan fær með sér og eru það ekki mælingar á fóstrinu heldur stillingar á tækinu. Svo lesa margar konur í bókum og á netinu og þá er ýmist talað um lengd frá höfði og niður á rass eða heildarlengd niður á hæl.

Kær kveðja,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreiningadeildar LSH,
7. febrúar 2007.