Andar barn í móðurkviði?

07.03.2008

Ég var að velta fyrir mér hvort barnið andaði í móðurkviði?

Kveðja, einn forvitinn.


Sæll og blessaður!

Í fósturlífi eru lungun full af vökva sem framleiddur er í lungunum. Öndunarhreyfingar sjást í sónar frá fyrsta þriðjungi meðgöngu. Í byrjun sjást þær af og til, eru tiltölulega hraðar og óreglulegar. Eftir því sem líður á meðgönguna verða öndunarhreyfingarnar tíðari og kröftugri. Með öndunarhreyfingum er barnið að „anda“ vökvanum í lungunum út í legvatnið og „anda“ svo að sér legvatni, þannig að vökvinn sem verður til í lungunum verður hluti af legvatninu. Við fæðingu eru um 10-25 ml/kg af vökva sem losnar úr lungunum eða síast inn í líkamann. 

Öndunarhreyfingar eru taldar hvetja vöxt og æfa öndunarvöðva. Öndunarhreyfingar eru meira áberandi yfir daginn og þegar barnið er vakandi en minni þegar barnið hvílist.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. mars 2008.