Spurt og svarað

20. ágúst 2007

Lesefni fyrir feður

Góðan daginn ... ég ætl að nöldra aðeins hérna .. ekki mikið en samt smá... þannig er mál með vexti að ég er að verða pabbi í fyrsta sinn með konunni sem ég elska og virði meira en allt á þessu jarðríki og hvað þá eftir að við komumst að því að hún gengi með barnið okkar ,,,, já þá svona einhvern veginn varð hún heilög fyrir mér.. þetta er búið að vera mjög erfitt hjá henni (og sá sem fann upp orðið morgunógleði hefur pottþétt verið karlmaður :) og ekki gengið með barn) því í rauninni þá er þetta ástand búið að vara á hverjum einasta degi núna í 13 vikur , hún hefur ekki getað borðað neitt og ef hún kemur eihverju niður þá ælir hún því inna klukkutíma.  En það sem ég ætlaði að nöldra yfir hérna er það að ég get hvergi fundið neitt efni sem við feður getum lesið og undirbúið okkur fyrir það að bumbubúinn kíkji í heiminn, ég meina hérna er endalaust efni fyrir verðandi mæður. líklegast er gengið útfrá því að þær lesi og segji okkur svo frá bara, en það er ekki nóg fyrir mig ég vill fá að lesa mér til sjálfur og fræðast.  Þá gæti ég frekar rætt það við konuna mína og við skipts á upplýsingum, kannski er ég nöldrari og kannski er til fullt af efni hérna sem ég get bara ekki fundið en ef svo er gætiru þá bent mér á hvar það er falið.  Ætla bara aðeins að monta mig af konunni minni hérna hún er búin að vera svo veik og svo máttlaus og þetta er búið að taka svo mikið af henni og ég ætla að viðurkenna það hér og nú að ef að það væri ég sem væri búinn að ganga í gegnum þessa meðgöngu á sama hátt og hún þá væri búið að leggja mig inná deild.

kveðja bumbu pabbiKomdu sæll bumbupabbi og takk fyrir að skrifa okkur.

Gaman að fá bréf frá verðandi föður, það er allt of sjaldgæft, og gaman að heyra hvað þú talar fallega um konuna þína.  Það er rétt að flestar upplýsingar beinast að móðurinni og fjalla um það sem hún er að ganga í gegnum en það þýðir ekki að pabbar geti ekki fræðst af því sama efni.  Pabbar eru jú miklir stuðningsaðilar á meðgöngu, í fæðingu og eftir að barnið er komið í heiminn og stuðningurinn verður þeim mun betri ef þeir vita hvað konan er að ganga í gegnum og hafa skilning á því.  Þess vegna er líka nauðsynlegt að lesa sér til eins og þú bendir á.  Þó fræðsla um meðgöngu, fæðingu og lífið eftir barnsburð og brjóstagjöfina sé kannski beint meira til kvenna en karla er ástæðulaust að láta það fæla sig frá lestri.  Hinsvegar er lítið efni til um það sem verðandi feður eru að ganga í gegnum eins og ég hef sagt áður hér á síðunni og er það aðallega vegna þess að tiltölulega fáar rannsóknir hafa verið gerðar á því.  Ég gerði sjálf könnun á fræðsluþörfum verðandi feðra og birtist útdráttur úr þeirri könnun hér á ljosmodir.is, og einhverjum spurningum hefur verið svarað frá feðrum (eða mæðrum um feður) en því miður þá er það allt og sumt sem er beint að feðrum hér ennþá.  Við munum fylgjast með nýustu rannsóknum á þessu efni og reyna að skrifa um það.

Gangi ykkur vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
20. ágúst 2007.

 Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.