Lífbeininð

09.04.2015

Komið þið sælar.  Ég er gengin tæplega 15 vikur og ég er komin með frekar mikla verki í lífbeinið. Kúlan mín er frekar stór miðað við flestar konur á þessum tíma en þetta er önnur meðgangan há mér. Ég var líka með mjög stóra kúlu snemma á síðustu meðgöngu en man ekki eftir að hafa fengið svona verki þetta snemma. Ég á bágt með að fara út að labba og það er vont að lyfta fótleggjunum liggjandi sem og standandi. Ég veit að þessir verkir eru vegna losunar í grind en geta þeir gengið yfir eða eru þeir varanlegir eftir að þeir byrja? Mér finnst þetta svo voðalega snemmt eitthvað hjá mér.

 
 Komdu sæl, það er þannig með grindarverki að þeir hafa tilhneigingu til að versna eftir því sem þú átt fleiri börn þannig að það passar alveg að þú sért verri en síðast. Losið á mjaðmagrindinni kemur vegna áhrifa hormóna sem fylgja meðgöngunni þannig að þú losnar ekki alveg við þetta þar til barnið er fætt. Hins vegar er oftast  hægt að læra á verkina og hvernig er best að hreyfa sig til að halda verkjum í skefjum. Ég ráðlegg þér eindregið að ræða þetta vel við ljósmóðurina þín í meðgönguverndinni og fá hjá henni ráðleggingar. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
09. apríl 2015