Lifrakæfa og A-vítamín

06.08.2008

Sæl!

Ég er vonandi bara með óþarfa áhyggjur en síðan ég var ófrísk hef ég ekki haft mikla löngun í mat en þó alltaf reynt að borða vel. Brauð með kæfu fór oft vel ofan í magann. Svo þegar ég fór að lesa mér til um mataræðið komst ég að því að mikið magn A-vítamíns geta verið skaðlegt fóstri. Ég borðaði 2 brauðsneiðar með kæfu á dag að minnsta kosti í 2-3 vikur en ég snerti ekki kæfu lengur og forðast allt með A vítamíni. Getur þetta haft einhver slæm áhrif?

Með þökk, ein með áhyggjur.


Sæl og blessuð!

Það er talað um að ekki sé ráðlegt að neyta matar sem inniheldur mikið A-vítamín en þá er fyrst og fremst átt við A-vítamín á „Retinol“ formi sem er í fæðu úr dýraríkinu s.s. lifur, lifrarkæfu og lifrarpylsu því það getur verið skaðlegt fyrir fóstrið sé þess neytt í of miklu mæli. Þó þú hafir borðað ríflega af kæfu á tímabili þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af því og í raun er í lagi að fá sér brauðsneið með lifrarkæfu svona af og til.

Gulrætur innihalda líka A-vítamín en þú mátt hins vegar borða eins mikið af gulrótum og þig langar til og því í þeim er A-vítamíni á „Beta-karótein“ formi sem er ekki skaðlegt þó þess sé neytt í miklu mæli.   

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.