Spurt og svarað

06. ágúst 2008

Lifrakæfa og A-vítamín

Sæl!

Ég er vonandi bara með óþarfa áhyggjur en síðan ég var ófrísk hef ég ekki haft mikla löngun í mat en þó alltaf reynt að borða vel. Brauð með kæfu fór oft vel ofan í magann. Svo þegar ég fór að lesa mér til um mataræðið komst ég að því að mikið magn A-vítamíns geta verið skaðlegt fóstri. Ég borðaði 2 brauðsneiðar með kæfu á dag að minnsta kosti í 2-3 vikur en ég snerti ekki kæfu lengur og forðast allt með A vítamíni. Getur þetta haft einhver slæm áhrif?

Með þökk, ein með áhyggjur.


Sæl og blessuð!

Það er talað um að ekki sé ráðlegt að neyta matar sem inniheldur mikið A-vítamín en þá er fyrst og fremst átt við A-vítamín á „Retinol“ formi sem er í fæðu úr dýraríkinu s.s. lifur, lifrarkæfu og lifrarpylsu því það getur verið skaðlegt fyrir fóstrið sé þess neytt í of miklu mæli. Þó þú hafir borðað ríflega af kæfu á tímabili þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af því og í raun er í lagi að fá sér brauðsneið með lifrarkæfu svona af og til.

Gulrætur innihalda líka A-vítamín en þú mátt hins vegar borða eins mikið af gulrótum og þig langar til og því í þeim er A-vítamíni á „Beta-karótein“ formi sem er ekki skaðlegt þó þess sé neytt í miklu mæli.   

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.