Líkamsrækt og hámarkspúls

27.11.2006

Góðan dag !
Ég hef stundað íþróttir af miklum krafti allt mitt líft.  Nú er ég komin
12 vikur á leið og var að velta fyrir mér hvort til séu einhver viðmið
fyrir hámarkspúls hjá ófrískum konum.
Mér líður mjög vel í þeirri líkamsrækt sem ég stunda en að sjálfsögðu
hlusta ég á líkama minn ef ég finn fyrir einhverju óeðlilegu.  Er mér
óhætt að halda áfram að æfa svo lengi sem mér líður vel eða þarf ég að
horfa í önnur viðmið líka eins og t.d. púlsinn ?

Með kveðju
Sigríður


Sæl Sigríður!

Ef þú ert vön að æfa mikið þá ertu væntanlega í góðu formi og veist þín takmörk. Ef þér líður vel á meðan æfingu stendur og þú finnur ekki fyrir neinum ofreynslu einkennum þá getur þú alveg haldið áfram að æfa á þeim hraða.

Til er það sem kallað er  "takmarks æfingapúls" (ég veit nú ekki alveg hvort þetta sé rétt íslenskað, en á ensku er þetta kallað "Target heart rate range") og þetta er púlsbil sem fæst með ákveðinni formúlu sem er:

(220-aldur þinn) x 0.60  til  (220-aldur þinn) x 0.80

Til dæmis ef þú ert 25 ára, þá lítur þetta svona út:

(220-25) x 0.60   til    (220-25) x 0.80
 
þ.e. 117 - 156 væri þá takmarks æfingapúls.

Samtök bandarískra kvensjúkdóma og fæðingalækna, mæla með því að konur sem æfa á meðgöngu haldi sig innan þessara púlsmarka þegar æft er.  Þetta er ágætis viðmið fyrir þær konur sem eru að byrja að æfa á meðgöngu og eru ekki í sérlega góðu formi fyrir og vita ekki alveg hvað þeim er óætt að leggja á líkama sinn. En fyrir konu eins og þig sem ert vön að æfa mikið og þekkir þín takmörk þá held ég að þér sé alveg óhætt að hlusta á líkaman þinn og fara eftir því sem hann segir þér.
Mundu bara að drekka nóg vatn!!

yfirfarið 29.10.2015