Andateppa og reykingar

06.11.2006

Sælar!

Ég hef smá spurningu og eiginlega skammast mín fyrir að koma með hana. Þannig er að ég er komin u.þ.b. 6-7 vikur og á mjög erfitt stundum með að „klára“ að anda. Næ ekki öllum andanum upp (voðalega erfitt að útskýra). Ég fékk svona líka á síðast en þá missti ég á 11.viku. Ég reyki reyndar ennþá en er að reyna að vinna í því að hætta alveg. Mér líður svolítið illa útaf reykingunum en er þessi andarteppa eðlileg? Er ég kannski bara kominn með langvinna lungateppu af óþvera?


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er þekkt að einstaklingar sem reykja mikið og/eða hafa reykt lengi finni fyrir mæði.  Nú veit ég ekki hvað þú reykir mikið eða hversu lengi þú hefur reykt og að hvort það gæti hugsanlega verið ástæðan. Það er  þekkt að konur sem reykja og eru barnshafandi hafi áhyggjur og séu með vanlíðan á meðgöngunni vegna sektarkenndar sem þær hafa vegna reykinganna. Slík vanlíðan og sektarkennd geta hugsanlega haft áhrif á öndun í þá átt sem þú lýsir. Það er ekki hægt að tengja þessi einkenni beint við meðgönguna þar sem þú ert komin það stutt á leið en hins vegar er þetta einkenni þekkt hjá konum á seinni hluta meðgöngunnar. Þegar kúlan er orðin stór þá þrýstir hún á lungun og veldur því minna lungnarými og konum finnst þær ekki ná djúpum anda, svipað því sem þú ert að lýsa.

Hins vegar hafa reykingar skaðleg áhrif á fóstrið og er það alltaf ávinningur að hætta að reykja.  Ég hvet þig því til að halda áfram að vinna í því að hætta að reykja.

uppfært 28.10.2015