Líkur úr hnakkaþykktarmælingu

08.01.2008

Sælar.

Nú fór ég í hnakkaþykktarmælingu komin akkurat 12 vikur og fékk líkur úr henni. Samkvæmt hnakkaþykktinni voru líkurnar 1:1700 fyrir litningi 13 og 18 en eftir samþætta matið urðu þær 1:900.

Nú hef ég talað við margar vinkonur mínar og líkurnar hafa allar farið í hina áttina hjá þeim, hjá flestum upp í 1:9000-12000. Ég hef því smá áhyggjur af þessum líkum þó að ég viti að ekki þurfi að skoða þetta betur fyrr en við 1:100. Er þetta bara bull í mér eða eru áhyggjurnar skiljanlegar?
Fæ oft svona ónota tilfinningu að ekki sé allt í lagi með barnið :(

Bestu kveðjur.


Sæl og gleðilegt ár.

Líkur úr hnakkaþykktarmælingunni er einstaklingbundnar og varast ber að bera sig saman við niðurstöður hjá öðrum konum. Ef líkur fyrir þrístæðu 13-18 er lægri en 100 er þeim konum boðin litningarannsókn. Þín niðurstaða er langt  fyrir ofan þau mörk og því ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Þú átt væntanlega tíma í 20 vikna ómskoðun þá er farið mjög vandlega yfir öll líffæri og meðal annars þá er hægt að greina þrístæðu 13 eða 18 .

Gangi þér vel.

Kveðja,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri á Fósturgreiningardeild LSH,
8. janúar 2008.