Spurt og svarað

12. september 2013

Linar hægðir og niðurgangur

Sælar og takk fyrir góðan vef.
Mér finnst ég hafa átt við smá magavandamál að stríða nánast síðan á 6. viku, er komin 12. vikur í dag. Ég fékk smá harðlífi í fyrstu, í kringum 5.-6. viku svo var það bara búið strax og við tók algjör andstæða. Það hefur frekar oft komið fyrir að ef ég borða, þá fái ég strax mikinn sting í magann, og svo niðurgang - innan við 10 mínútum frá máltíð. Fyrir utan þessi tilvik eru hægðirnar alltaf linar, en ég er farin að kvíða fyrir því að borða. Það sem ég hef lesið er að maður eigi frekar að búast við harðlífi á þessum tíma og það sé eðlilegt, er þetta þá óeðlilegt, þarf ég að hafa áhyggjur? Ég fæ ekki tíma í fyrsta meðgönguverndartímann fyrr en 19. september.
Sæl Katrín og takk fyrir að leita til okkar
Það er misjafnt hvernig konur fara í gegnum meðgöngu, sumar konur þyngjast á meðan aðrar konur grennast og er það greinilega að efnaskiptin geta breyst hjá konunni. Það á einnig við um hægðirnar. Oftar en ekki er það að konur á meðgöngu fái harðar hægðir og er það oft vegna járns sem þær þurfa að vera að taka inn. Ég myndi halda að þetta myndi ganga yfir og svo getur það einnig verið að þú hafir fengið einhverja niðurgangspest sem hefur verið að ganga. Ef þér líður mjög illa í maganum og þú tengir það linum hægðum þá geturðu borðað eitthvað stemmandi. Það getur verið epli og jafnvel mjólkurvörur, forðast þá um leið það sem getur valdið linum hægðum eins og appelsínur, kaffi, vínber og það sem þér finnst fara í meltingarveginn þinn. En endilega að sleppa ekki við að borða, til að meðgangan gangi sem best.
Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað.


Bestu kveðjur,
Steina Þórey Ragnarsdóttir,
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. september 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.