Linsoðin og spæld egg

07.09.2007

Hæ, hæ og takk fyrir góða síðu.

Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri í lagi að borða linsoðin og spæld egg á meðgöngu þar sem eggjarauðan er ekki full elduð eins og í venjulegum soðnum eggjum.


Hæ, hæ og takk fyrir að leita til okkar!

Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi á Umhverfisstofnun þá hefur ekki greinst salmónella í hænueggjum hér á landi svo vitað sé og því ætti ekki að vera hætta á ferðum. Ef eggið er ferskt, ósprungið  og geymt við réttar aðstæður á rauðan að vera án baktería. Rauðan er forði fyrir fóstrið, ef eggið er frjótt, sem það er aldrei þegar um venjuleg egg er að ræða. Hvítan inniheldur ýmis prótein sem hafa það hlutverk að verja fóstrið gegn bakteríum og veirum. Athugið þó að annað gildir um andaregg, egg viltra fugla og sjófuglsegg og þau ætti að fullelda áður en þeirra er neytt. 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. september 2007.