Spurt og svarað

30. maí 2011

Andleg líðan á þriðju meðgöngu

Sælar ljósmæður.

Ég geng með mitt þriðja barn og er heldur niðurdregnari og óttaslegnari en á fyrri meðgöngum. Maðurinn minn vill helst að ég hlýði ekki á fréttir vegna þess að ég fer alltaf að hágráta yfir þeim. Ég er hrædd við að eitthvað komi fyrir á þessari meðgöngu eða eitthvað verði að barninu og ég hef áhyggjur af því að það muni bitna á eldri börnum okkar. Eftir lestur ótal góðra svara hér á vefnum er ég ákveðin í að ræða andlega líðan við ljósmóðurina í næstu skoðun en mig langar samt að vita hvað skilur á milli þunglyndis og eðlilegra hormónasveiflna. Hvar dragið þið mörkin? Er þetta kannski bara þreyta og aumingjaskapur?  Mig langar líka að vita hvort þið ljósmæður gætuð mælt með einhverri góðri og upplífgandi lesningu á meðgöngunni. Vefsíðu, bók eða bara einhverju sem beinir athyglinni að því hvað það er í raun yndislegt að eignast barn.

Með kveðju og þökk fyrir þennan góða vef


Komdu sæl.

Það er alveg rétt hjá þér að tala um þessa líðan þína í mæðraverndinni.  Í raun er talað um að ef andleg líðan er svo slæm að viðkomandi finnst hún þurfa hjálp og/eða ekki ráða sjálf við að komast uppúr þessu er rétt að leita sér hjálpar.  Sumar konur tala þó um að kvíði og hræðsla aukist eftir því sem meðgöngurnar verði fleiri.

Ljósmóðirin eða læknir getur lagt fyrir þig spurningalista um andlega líðan.  Þá verður þú að svara heiðarlega og sannleikanum samkvæmt.  Svo eru reiknuð út ákveðin stig sem sýna hvort um hugsanlegt þunglyndi er að ræða eða eðlilegar sveiflur.

Fyrsta skrefið er að ræða málin við ljósmóðurina þína eða lækni.

Ég auglýsi hér með eftir jákvæðri lesningu á meðgöngu, því miður er allt of mikið horft á það erfiða og neikvæða við meðgöngu og fæðingu.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
30. maí 2011.


.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.